Tindastóll/Hvöt upp í 1. deild eftir spennandi lokaumferð

Lið Tindastóls/Hvatar gerði sér lítið fyrir í dag og sigraði keppni í 2. deildinni í knattspyrnu með því að vinna frábæran sigur á seigu liði Völsungs frá Húsavík. Leikurinn var sannkölluð rússíbanareið og ágæt skemmtun fyrir heimamenn en leikmenn tóku við sigurlaunum sínum að leik loknum í brakandi blíðu á Króknum. Lokatölur urðu 4-2 en staðan var jöfn í hálfleik.

Það voru algjörar kjöraðstæður á Sauðárkróksvelli þegar leikurinn fór fram, bullandi hiti og skagfirskt logn. Fyrir leik var Tindastólsmanninum Stefáni Guðmundssyni minnst með mínútuþögn en Stebbi varð bráðkvaddur fyrir réttri viku. Leikurinn fór síðan fjörlega af stað og voru heimamenn skeinuhættari. Fyrsta mark leiksins kom síðan eftir 10 mínútna leik en þá skallaði Björn Anton Guðmundsson boltann í net gestanna eftir aukaspyrnu. Eftir þetta reiknuðu stuðningsmenn með því að leikurinn yrði þægilegri fyrir heimamenn og þeir gætu slakað aðeins á spennunni. Slökunin varð kannski of mikil því Hafþór Már Aðalgeirsson gerði næstu tvö mörk leiksins fyrir Völsung. Fyrst lyfti hann laglega yfir Gísla í markinu á 20. mínútu og á þeirri 27. náði hann að skora eftir að Gísli varði vítaspyrnu, boltinn barst út í markteiginn og Hafþór var fyrstu að bregðast við. Þetta var köld vatnsgusa framan í leikmenn Tindastóls/Hvatar og þeir urðu að gjöra svo vel að sækja, því til að tryggja sér sæti í 1. deild varð liðið að ná í það minnsta eitt stig úr leiknum. Pressan jókst og á 40. mínútu var Arnar Sigurðsson við það að skalla boltann í mark Völsungs þegar Stefán Jón Sigurgeirsson slengdi hönd í boltann. Heimamenn fengu víti og Stefán skoðaði rauða spjaldið hjá dómaranum og vænkaðist því hagur heimamanna. Gísli Eyland Sveinsson markvörður skokkaði yfir völlinn og skoraði af fádæma öryggi úr vítinu. Staðan 2-2 í hálfleik.

Tindastóll/Hvöt hófu síðari hálfleik vel, héldu boltanum og reyndu að skapa sér færi. Arnar og Theo voru flinkir og flottir á köntunum og voru gestunum erfiðir en Árni Einar dældi fínum boltum til þeirra. Þegar um 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik gerði Ingvi Hrannar Ómarsson þriðja markið fyrir heimamenn og nú lá við að stuðningsmenn gengju af göflunum - sérstaklega þó Grettismenn sem sungu og hrópuðu allan leikinn. Mark Ingva var laglegt en það reyndist vera síðasta framlag hans í leiknum því eftir að hafa fagnað af krafti fór hann meiddur af velli. Eftir þetta færðu Völsungar lið sitt framar og reyndu að ógna marki heimamanna en fáliðuðum gekk þeim illa að skapa sér færi þrátt fyrir laglega spretti hjá Elfari Árna Aðalsteinssyni. Heimamenn héldu haus og börðust um hvern bolta. Þegar um 10 mínútur voru til leiksloka vann Árni Arnarson boltann af harðfylgi á hægri kanti og sendi fyrir á Arnar Sig sem losaði sig við varnarmann Völsunga og sendi boltann í markið. Staðan 4-2 og ljóst í hvað stefndi - 1. deildina!

Fögnuður heimamanna var ósvikinn í leikslok og þustu stuðningsmenn inn á völlinn til að samfagna leikmönnum. Ekki skemmdi svo fyrir þegar í ljós kom að grannar okkar í KF höfðu náð jafntefli gegn toppliði Hattar á Egilsstöðum. Það þýddi að Höttur var ekki lengur á toppnum, heldur Tindastóll/Hvöt, og sigur í 2. deild staðreynd. Og hver hefði trúað því að loknum 6 umferðum í 2. deildinni í sumar?

Lið Tindastóls/Hvatar var vel að sigrinum komið í dag. Allir leikmenn skiluðu sínu og það er gaman að sjá hversu fínan fótbolta liðið hefur verið að spila núna í seinni umferðinni. Rétt er að óska leikmönnum til hamingju, sem og stuðningsmönnum Tindastóls og Hvatar, með glæsilegan árangur. Og svo er það Donni þjálfari. Hann tók við liðinu af föður sínum þegar þrjár umferðir voru liðnar af tímabilinu, liðið lánlaust og ekkert stig í húsi og talsverð gagnrýni í gangi varðandi réttmæti þess að sameina Tindastól og Hvöt í 2. deildinni. Ekki beinlínis þægilegustu aðstæður til að taka við liði en árangurinn talar sínu máli – snilld!

Fleiri fréttir