Tók ástfóstri við Fernando Torres í æsku - Liðið mitt … Snæbjört Pálsdóttir FC Liverpool

Þátturinn Liðið mitt hefur verið ansi dapur þetta árið sem einkennist af áhuga-, eða framtaksleysi þátttakenda. Aðeins einn þáttur hefur birst en sá sem skorað var á svaraði aldrei. Til að koma þættinum af stað aftur ákvað þáttarstjórnandi að senda hann ekki langt og taldi sig þar með öruggan um að svör bærust fyrir þetta blað. Ég vona að lesendur fyrirgefi það. Það er sem sagt fv. varnartrukkurinn í Tindastól Snæbjört Pálsdóttir sem svarar Liðinu mínu. Snæbjört, sem starfar sem fulltrúi í tjónaþjónustu VÍS, býr núna fyrir sunnan en segist þó alltaf vera með annan fótinn á Króknum.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Uppáhalds liðið mitt í enska boltanum er Liverpool að sjálfsögðu! Líklega hefur hann karl faðir minn haft puttana í þeirri ákvörðunartöku en mjög ung var ég farin að rífast við bekkjafélaga um ágæti liðsins. 

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég er mjög bjartsýn fyrir komandi tímabil enda hefur liðið byrjað það afbragðs vel. Eigum við ekki bara að skjóta á það að liðið muni hampa bikarnum í lok tímabils.

Ertu sátt/sáttur við stöðu liðsins í dag? -Ég er mjög sátt með stöðuna í dag, enda á toppi riðilsins án taps.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já því miður hefur maður oft á tíðum lent í deilum við misgáfulega aðdáendur annarra liða.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Sem sannur Liverpool maður verð ég að segja Steven Gerrard. Tók þó einhverju ástfóstri við Spánverjann Fernando Torres í æsku eftir gláp á heimsmeistaramótið árið 2006. Það var því mikið gleðiefni á sínum tíma, þegar hann gekk svo til liðs við Liverpool.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei því miður á ég það alveg eftir, en hef ekki trú á öðru en að við fjölskyldan skellum okkur nú á leik von bráðar.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Ég á nú eitt og annað, en skarta stolt á símahulstrinu Liverpool „pop socket“ svo það fer ekki á milli mála hvaða lið ég styð.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Ég hef nú lítið þurft að ala fjölskyldumeðlimi mína upp, enda afbragðs gáfað fólk sem að sjálfsögðu myndi aldrei styðja annað lið en Liverpool!

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei svoleiðis guðlast myndi ekki hvarfla að mér!

Uppáhalds málsháttur? -Get ekki sagt að ég eigi neinn uppáhalds málshátt, en þessi þykir mér nokkuð góður „Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.“

Einhver góð saga úr boltanum? -Ég á margar góðar og misgóðar sögur úr boltanum. Fáránlega asnalegar meiðslasögur, sögur úr hinum ýmsum keppnisferðum, frægðarsögur um ýmsar tæklingar og mörk, eins sögur af frábærum leikjum. Myndi segja að eitt það skemmtilegasta í boltanum hafi verið að ná að spila með báðum systrum mínum í meistaraflokksleik. Annars verð ég líka að minnast á leik frá því síðasta sumar, þegar við stelpurnar í meistaraflokki kvenna hjá Tindastól, náðum á einhvern ótrúlegan hátt að vinna Gróttu 6-5 eftir að hafa verið undir 2-5 á 60. mínútu. Sýndum þar þann einstaka karakter sem einkennir þetta frábæra lið! 

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Við stelpurnar í meistaraflokki kvenna hjá Tinsastól náðum eitt árið að hrekkja strákana í meistaflokki karla hjá Tindastól all hressilega. Náðum við að halda aðild okkar í hrekknum leyndum þangað til á uppskeruhátíðinni um haustið, þar sem við viðurkenndum verknaðinn. Hrekkurinn sjálfur er nú varla prenthæfur fyrir jafn virðulegt blað og Feykir er, svo ég læt það vera að fara í smáatriði.

Spurning frá Feyki: -Hverjar telurðu líkurnar vera á því að Man. United sigri Liverpool í vetur eða geri jafntefli? 

Svar: -Ég tel líkurnar vera ansi lágar, þar sem Liverpool er einfaldlega bara með mun betra lið í ár en erkifjendurnir.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Væri til í að sjá hana Brynhildi, vinkonu og fyrrum liðsfélaga svara þessum spurningum.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hvenær á að reima aftur á sig takkaskóna og spila þessa þrjá leiki fyrir Tindastól sem þú átt eftir til að ná 100 leikjum fyrir félagið ?

Snæbjört og Ísafold

Þar sem Feykir er tileinkaður hrossum þessa vikuna er tilvalið að spyrja um einhverja skemmtilega sögu úr hestamennskunni? -Ég á nú fullt af góðum sögum og minningum tengt hestamennskunni. En ætli mín uppáhalds sé ekki þegar ég vann hryssuna mína, hana Ísafold, eftir veðmál við pabba minn. Þannig var að ég var að keppa á henni Ísafold, líklega á félagsmóti hjá hestamannafélaginu Léttfeta, og var þriðja inn í úrslit. Eitthvað ætlaði pabbi að hvetja mig áfram í úrslitunum og veðjaði við mig að ef ég myndi sigra í úrslitunum mætti ég eiga hryssuna. Líklega hefur hann ekki haft trú á að ég myndi vinna, en svo varð nú raunin. Þegar úrslitin voru tilkynnt og í ljós kom að ég hafði sigrað brutust út fagnaðarlæti í brekkunni en veðmál okkar pabba hafði spurst út. Ég að sjálfsögðu kallaði hátt og greinilega til pabba að nú ætti ég sko merina. Pabbi skoraðist að sjálfsögðu ekki undan veðmálinu og á ég hana Ísafold enn þann dag í dag. 

Áður birst í 35. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir