Um dans, skemmtanir og annan ólifnað á jólum - Inga Katrín D. Magnúsdóttir skrifar.

Starfsmaður BSk undirbýr rökkurgöngu.
Starfsmaður BSk undirbýr rökkurgöngu.

Jólin eru í hugum margra tími gleði og samverustunda. Það er þó misjafnt hversu taumlaus gleðin hefur mátt vera í gegnum aldirnar. Margir af eldri kynslóðunum slá enn í dag varnagla við „óviðeigandi“ spilum og leikjum á aðfangadagskvöld og jóladag. Mun það vera arfur frá 17. og 18. öld, þegar kirkja og konungsvald leituðust við að koma böndum á skemmtanir sem ekki áttu tilvist sína í ritningunni, þá sérstaklega á hátíðisdögum.

Þegar litið er aftur í aldir, á skemmtanir tengdar jólum kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Samkomur í kringum jól þekkjast aftan úr heiðni sem miklar át og drykkjuveislur. Á norðurslóðum hafa frá alda öðli verið haldnar hátíðir í kringum vetrarsólhvörf og löngu fyrir kristnitöku var haldin hátíð sem nefndist jól.[1] Stórveislur á jólum héldu áfram eftir kristnitöku, bæði meðal höfðingja og biskupa, en við vitum ekki í smáatriðum hvernig slíkar veislur fóru fram. Ólíklegt þykir að dans hafi verið stundaður í húsakynnum biskupa í jólaveislum. Fjölmargar heimildir þar sem óbeit biskupa á dansi kemur fram sýna þó að dans var almennt iðkaður a.m.k. frá 13. öld (að öllum líkindum lengur) og tíðkaðist fram á 18. öld, er farið var að taka á dansleikjum af meiri hörku, í kjölfar konunglegrar tilskipunar.[2]

Vitað er að fólk hélt alls kyns skemmtanir í heimahúsum á jólum, en hvað með kirkjustaði? Í pápískum sið (kaþólsku) voru vökur nóttina fyrir stórhátíðir, kallaðar vökunætur. Messað var á aðfangadagskvöld og aftur á jóladag. Þeir sem voru langt að komnir til kirkju fóru ekki til síns heima í millitíðinni og ekki áttu allir svefnstað á kirkjustöðum. Það kann því að vera að fólk hafi notað tímann og haldið á sér hita með dansi og skemmtun í eða við kirkjur eða á kirkjustöðum, sem voru oft rúmbestu húsin í þá daga. Til eru þjóðsögur um dans í kirkjum á jólanótt, s.s. Sagan um Dansinn í Hruna[3], en slíkar sögur enda ævinlega með ósköpum. Kirkjur sökkva í jörð með fólkinu í, sem segir sjálfsagt meira um það samfélagslega umhverfi sem þær spretta úr á 18. og 19. öld heldur en viðburðinn sem þær segja frá, sem gæti átt sér rætur aftar í tíma.[4]

Á 18. öld fór, eins og áður segir, kirkjunnar yfirvald og konungs að mæla harðar gegn alls kyns skemmtunum. Í barnalærdómskveri frá fyrri hluta 18. aldar segir m.a.: „Hvar með vanhelgar maður hvíldardaginn? Með líkamlegu nauðsynjalausu erfiði, sömuleiðis syndsamlegum skemmtunum, so með dansi, spilum og öðrum apaskap… so með dansi, spilum, gleðileikjum, að ganga í drykkjuhús og öðru soddan, sem altíð er synd í sjálfu sér en á helgidögum tvöföld synd.“[5]

Það kom í hlut klerka og sýslumanna að hafa hemil á skemmtunum sem „úr hófi keyrðu.“ Báðar starfsstéttir virðast hafa verið mis gagnrýnar á skemmtanir framan af, og fóru viðbrögðin að því er virðist meira eftir persónulegu viðhorfi en laganna bókstaf og kirkjulegri tilskipan. Jón biskup Vídalín (1666-1720) kvað hóflega skemmtun nauðsynlega fyrir sál og líkama, en Steinn Jónsson (1660-1739) Hólabiskup á 18. öld orti: 

Leikar, ofdrykkja, dans og spil
Drottni gjörast þá síst í vil.
Enga Guðs dýrkan eflir slíkt
óskikkan sú þó gangi ríkt.[6] 

Sýslumenn virðast einnig hafa verið misstrangir gagnvart gleðskap og dæmi eru um að þeir hafi jafnvel verið í broddi fylkingar í dansi. Jón Hjaltalín (1687-1755), sýslumaður í Reykjavík mun hafa verið með síðustu embættismönnum sem héldu jólagleði áður en slíkt var aftekið. Um gleðina er til vikivakakvæði eftir séra Gunnar Pálsson frá 1740:

Nóttina fyrir nýársdaginn, 
nokkuð trúi eg haft sé við.
Fellur mönnum flest í haginn
fullum upp með gamanið.
Þá er á ferðum enginn aginn
allir ráða gjörðum sín.
Hjá honum Jóni Hjaltalín-
Fagur kyrtill, fullur maginn, 
fallega þeir sér ansa.-
Allan veturinn eru þeir að dansa 

Annars dags kvöld eins í jólum
og aðfaranótt þrettándans
leika menn sem hlaupi á hjólum
hvergi verður gleðinnar stans.
Hætt er við þeir hringi tólum
hegðun sú má kallast fín.
Hjá honum Jóni Hjaltalín- 
Gaman er að soddan sjólum
sér þótt stofni vansa.-
Allan veturinn eru þeir að dansa.[7]

Fleiri sýslumenn brutu hin konunglegu boð gegn veraldlegum gleðskap s.s. Bjarni Halldórsson (1703?-1773) á Þingeyrum, sem hélt jólagleði með dansi árin 1755-1757. Prófastinum á Staðarbakka í Miðfirði, síra Þorsteini Péturssyni fannst ekki duga minna en að skrifa bók um hneykslið (Leikafælu) og lýsir leiknum svona: 

„Þessi leikur skal framinn með glensi og gamni af karlmönnum og kvenfólki til samans, með mörgum snúningum allt um kring, með stappi aftur á bak og áfram, með hoppi upp og niður, með hlaupum til og frá; so herðir hvör sig að dansa eftir útblæstri eður andardrætti ludi magistri [leikstjórans] og þegar suma svimar so þeir tumba um koll þá verða ýmsir undir. Fara þá föt og forklæði sem verða vill. Þá er og földum kvenna flug og forræði búið. Þessu skal vera hrósað og hlegið að eftir vonum af potestate supereminente [hinu háa yfirvaldi]. Brennivín er þá við höndina að hressa hinn gamla Adam so hann þreytist hvörki né uppgefst fyrri en mælir syndanna er uppfylltur.“[8] 
Dæmi svo hver fyrir sig hvort hann vildi frekar taka þátt í teiti Bjarna eða síra Þorsteins. 

Fátt er um frásagnir um opinberar jólagleðir eftir þá á Þingeyrum. Hið forna dansleikjahald lagðist að mestu niður í kjölfarið og gleymdist, og með því gömul íslensk dansafbrigði. Í lok 19. aldar fór aftur að losna um þessar hömlur í skemmtunum og hófu þá erlendir samkvæmisdansar innreið sína.[9] Í dag þekkjum við siðinn að dansa í kringum jólatré undir söng og víða eru haldin jólaböll í kringum hátíðina. Jólaskemmtun á sjálfan aðfangadag og jóladag, hvort sem það er spilamennska eða dans- og sönggleði er þó e.t.v. enn í dag í lágmarki, eða hvað segir fólk um það? Endilega deilið með okkur jólasiðum og frásögnum af skemmtunum á jólahátíðinni á fésbókarsíðu safnsins.

 Hin árlega Rökkurganga Byggðasafns Skagfirðinga verður [var] haldin dagana 14.-15. desember. Viðburðurinn verður auglýstur nánar síðar. (Aths. blaðam. Þessi málsgrein átti við er greinin birtist í Jólablaði Feykis.)

Starfsfólk Byggðasafns óskar Skagfirðingum og nærsveitamönnum gleðilegra jóla og vonar að fólk skemmti sér fallega yfir jólahátíðina.

Áður birst í 45. tbl. Feykis 2019.[1] Áhugasömum er bent á umfjöllun um jólin í Saga daganna eftir Árna Björnsson, bls. 314-386.

[2] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 376-382.

[3] Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. II bindi. (Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu). (1954). Bókaútgáfan Þjóðsaga. Bls. 7. (Rafræn útgáfa Landsbókasafns: https://baekur.is/bok/000197670/2/Islenzkar_thjodsogur_og_Bindi_2%2006.12.2018%2014:27)

[4] Sama heimild. Bls. 378-384./ Jón Árnason og Ólafur Davíðsson. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. III bindi. (1894). Hið íslenzka bókmenntafélag. Bls. 7.

[5] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 373-374.

[6] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 373.

[7] Sama heimild. Bls. 378-382.

[8] Sama heimild. Bls. 383.

[9] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 383-384.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir