Undirskriftalisti afhentur sveitarstjóra
Hulda Jónsdóttir og dóttir hennar Rebekka Ýr Huldudóttir afhentu Guðmundi Guðlaugssyni sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar í dag undirskriftalista með 236 nöfnum þar sem skorað er á sveitarfélagið að beita sér fyrir því að ná niður umferðarhraða í bænum.
Listinn lá frammi í helstu verslunum á Sauðárkróki auk þess sem Hulda mætti við skólann við Freyjugötu og bauð fólki að skrifa nafnið sitt og styðja hana í baráttunni um bætta umferðamenningu í bænum. Er þá helst verið að fara fram á að umferðahraði við skóla verði lækkaður.
Stefán Vagn yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki segir þetta frábært framtak hjá Huldu og segir embættið taka undir áhyggjur hennar því úrbóta sé þörf. –Það eru götur í bænum sem þola ekki 50 km hámarkshraða og ég vona að hægt verði að gera eitthvað í því strax, segir Stefán.
Undirskriftarlistinn fær í framhaldinu hefðbundna meðferð í Umhverfis og samgöngunefnd.