Undirskriftarsöfnun Mænuskaðastofnunar Íslands

Mænuskaðastofnun Íslands hefur hrint af stokkunum undirskriftasöfnun. Markmiðið er að vekja athygli fjölmiðla, almennings og ráðamanna á Norðurlöndum á tillögu um mænuskaða sem tekin verður til lokaafgreiðslu á þingi Norðurlandaráðs í nóvember nk.

Herferðinni er beint að íslenskum konum í von um að nota samstöðuna til vekja athygli á málstaðnum. Fram kemur á heimasíðu MÍ að á Íslandi búa nú 123.712 konur 16 ára og eldri.

„Með samtakamætti okkar getum við lagt lið milljónum manna um allan heim, um alla framtíð, mannkyni til heilla og skrifað í leiðinni nafn lands okkar og þjóðar á spjöld sögunnar af góðum verkum. Það myndi væntanlega vekja athygli langt út fyrir landsteinana ef mikill fjöldi íslenskra kvenna hvettu ofangreind öfl til dáða, í afar erfiðu verkefni,“ segir Auður Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur og stjórnarformaður MÍ, á heimasíðu félagsins.

Efni tillögunnar er að Norðurlandaráð setji á laggirnar starfshóp lækna og vísindamanna með það að augnamiði að skoða rannsóknir og meðferðir á mænuskaða og gera tillögur um úrbætur.

Erfiðlega hefur gengið að þróa lækningameðferðir við mænuskaða og er von um að þessi herferð muni hreyfa við heiminum í þágu mænuskaðans.

Hér er undirskriftalistinn.

Fleiri fréttir