Vængir Júpíters flugu hátt á Króknum

Konni átti ágætan leik þrátt fyrir þungt tap í dag. MYND: ÓAB
Konni átti ágætan leik þrátt fyrir þungt tap í dag. MYND: ÓAB

Tindastóll fékk illa á baukinn í dag þegar Vængir Júpíters úr Grafarvoginum mætti á Krókinn í 10. umferð 3. deildar. Stólarnir unnu fyrri leik liðanna í sumar en nú gekk fátt upp og gestirnir gengu á lagið, hefðu hæglega getað gert tíu mörk en Atli Dagur átti nokkrar magnaðar vörslur í leiknum. Lokatölur 1-5 og úrslitin mikil vonbrigði fyrir Tindastólsliðið sem hefur verið að berjast á toppi deildarinnar í sumar.

Vængir Júpíters komust yfir eftir um 15 mínútna leik en eftir að þeir fengu aukaspyrnu á ákjósanlegum stað var boltinn sendur inn á teiginn þar sem Ólafur Guðmundsson skoraði af öryggi. Vængirnir komust ítrekað of auðveldlega í gegnum vörn Tindastóls og ekki var það til að bæta varnarleik heimamanna þegar varnarjaxlinn Fannar Kolbeins fór af velli eftir mikið samstuð, fékk slæmt höfuðhögg og var fluttur á sjúkrahús til skoðunar en það fossblæddi úr kappanum. Victor Borode tók stöðu hans og honum var ekki gerður greiði með því, ekki vanur að spila þá stöðu. Bæði lið fengu færi þegar leikurinn hófst á ný eftir langt hlé. Tanner Sica átti skot í stöng fyrir Stólana og Luke fylgdi á eftir en setti boltann yfir úr ágætu færi. Gestirnir náðu síðan frábærri skyndisókn þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og Kristján Eymundsson kom Vængjum Júpíters í 2-0.

Eftir mínútu leik í síðari hálfleik varði Atli frábærlega í tvígang frá Vængjunum og áfram hélt bröltið á liði Tindastóls. Ervist Pali kom gestunum í 3-0 eftir 51 mínútu og Gunnar Bergvinsson gerði fjórða mark gestanna á 60. mínútu eftir slæm mistök Ísaks. Þá tók Luke Rae til sinna ráða og spólaði sig í gegnum vörn Vængjanna og minnkaði muninn í 4-1 en það var augljóst að Stólarnir voru ekki að fara að jafna leikinn, enda staðan þægileg fyrir gestina sem gátu legið aftarlega og sótt hratt á heimamenn. Gunnar Johns bætti við fimmta markinu á 77. mínútu þegar hann valsaði framhjá nokkrum stöðum Stólum og stakk boltanum framhjá Atla í marki Tindastóls. 

Í dag reyndist gestunum allt of auðvelt að stinga boltanum upp í hornin og inn fyrir vörn Tindastóls sem átti slæman dag. Konni var Stóla bestur, fór mikinn á miðjunni og átti óteljandi gullsendingar á vinstri kantinn en samherjunum gekk illa að koma boltanum fyrir markið og skapa alvöru færi. Lið Tindastóls átti margar álitlegar sóknir í leiknum en ákvarðanatakan á síðasta þriðjungnum var afleit í dag. Framherji Tindastóls, Luke Rae, átti nokkrar fallegar rispur, sótti boltann stundum djúpt niður á völlinn og þaut svo af stað. Frábær leikmaður. Þrátt fyrir að hafa þurft að sækja boltann fimm sinnum í markið í dag þá átti Atli Dagur margar fínar vörslur og kom í veg fyrir að úrslitin yrðu enn nöturlegri. 

Aðeins 15 leikmenn voru á skýrslu hjá Stólunum í dag líkt og á Egilsstöðum um síðustu helgi. Liðið mátti greinilega illa við því að missa Halldór Brodda heim til Noregs og þá var varnarmaðurinn Michael Ford að spila sinn síðasta leik fyrir Tindastól og verður hans sárt saknað. Eftir því sem heimildir Feykis herma þá er von á liðsstyrk. 

Það er skammt stórra högga á milli í boltanum þessa dagana, enda búið að endurraða þeim leikjum sem frestað var í COVID-pásunni. Næsti leikur Tindastóls er strax á þriðjudaginn en þá kemur lið KV (b-lið KR) í heimsókn á Krókinn en Vesturbæingarnir eru nú í öðru sæti 3. deildar, með 21 stig, en lið Tindastóls er í 3.-4. sæti með 16 stig líkt og Augnablik. Ætli lið Tindastóls að eiga möguleika á sæti í 2. deild að ári þurfa að nást góð úrslit gegn KV. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir