Veður enn leiðinlegt á Norðurlandi vestra

Nú er hressilegt vetrarveður á Norðurlandi vestra líkt og á öllu landinu. Um hádegisbil var vindur norðaustan 21 m/sek á Bergsstöðum og tveggja stiga frost. Veðurstofan reiknar með að vindur gangi nokkuð niður eftir því sem líður á daginn.

Talsverðum snjó hefur kyngt niður frá í gær og víða dregið í hina myndarlegustu skafla þannig að færð er ekki upp á marga fiska. Ófært er um Vatnsskarð, Þverárfjall, Öxnadalsheiði, Siglufjarðarveg og Lágheiði þannig að Skagfirðingar eru ekkert á leiðinni í burtu sem stendur. Víðast hvar er þæfingur á vegum.

Á Sauðárkróki hefur verið leiðinda veður síðan í fyrrinótt, hvassviðri og hríðarbylur. Ljósmyndari Feykis skaust aðeins út í bæ í morgun og tók þá þessar myndir sem hér fylgja.

Fleiri fréttir