Við munum ekki lengur geta haldið uppi óbreyttri þjónustu

 –Við erum orðin vön niðurskurði og höfum þurft að sjá á eftir góðu fólki. Hjá stofnuninni er trútt og tryggt starfsfólk og er starfsaldur óvíða jafn hár. Við höfum reynt að hlaupa hraðar og leggja ? okkur öll fram til þess að þjónusta notenda skerðist sem minnst. Það er ljóst að það mun breytast og við munum ekki geta lengur haldið óbreyttri þjónustu. Það er eins gott að eftir áramót handleggsbrjóti fólk sig ekki eftir klukkan fjögur á daginn, sagði Guðbjörg Árnadóttir, fulltrúi starfsmanna á fjölmennum borgarafundi á Sauðárkróki í gærkvöld.  

Einróma niðurstaða fundarins var að hafna þeim skipulagsbreytingum sem fjárlagafrumvarp ársins 2011 boðar í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Ávörp á fundinum fluttu þau Hafsteinn Sæmundsson, forstöðumaður heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki,  Guðbjörg Árnadóttir, fulltrúi starfsmanna, Helga Sigurbjörnsdóttir frá Hollvinasamtökum HSK,  og Bjarni Jónsson formaður Byggðaráðs Skagafjarðar.

Í ávarpi Guðbjargar kom fram að í fyrra þegar þáverandi ráðherra hafi boðað að nú væri komið gott hafi starfsfólk lagst á eitt til þess að láta enda ná saman. Lagt á sig aukastörf til þess að fækka vöktum og láta þetta ganga. Álagið hafi á stundum verið ómannúðlegt og ljóst að lengra verði ekki hægt að ganga.

Jafnframt kom fram í máli Guðbjargar að með niðurskurði af þessari stærðargráðu sé ljóst að þrengja þurfi að fólki og ekki verði lengur hægt að framfylgja þeirri stefnu að leifa eldri borgurum sem á stofnuninni búa að vera einum í stofu.  –Fólk sem liggur banaleguna mun þurfa að fara burt frá öllu sínu til þess að deyja, sagði Guðbjörg.

Bjarni Jónsson bað þann þingmann í salnum sem styddi þessar niðurskurðar tillögur að standa upp, þar sem enginn stóð upp sagðist Bjarni líta svo á að enginn þingmannanna styddi framlagðar tillögur um niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.

Þingmennirnir Einar Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðmundur Steingrímsson, Ásmundur Einar Daðason, Ólína Þorvarðardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson og Jón Bjarnason tóku öll til máls en til þess að gera langa sögu stutta höfðu þau öll sömu sögu að segja. Ekkert þeirra styður framkomnar tillögur.

Fjarverandi voru þau Lilja Rafney Jónsdóttir og Guðbjartur Hannesson.

Mikill baráttuandi var á fundinum og voru fundarmenn á einu máli um að niðurstöðu draga að fjárlögum yrði ekki unað. Þá  vísuðu fundarmenn á bug þeirri kenningu þingmanna að þarna væri höfuðborgarsvæðið að kvelja landsbyggðina enda hafi fjárlagafrumvarpið verði lagt fram af ríkisstjórn Íslands en ekki höfuðborgarbúum.

Fleiri fréttir