Vistmenn Háholts réðust á starfsmann og struku
Á fréttavef Ríkisútvarpsins segir frá því að fjórir vistmenn á meðferðarheimilinu að Háholti í Skagafirði hafi ráðist á starfsmann heimilisins, stolið bíl og strokið til Akureyrar sl. sunnudag. Voru þeir handteknir daginn eftir. Starfsmaðurinn hlaut minniháttar áverka.
Um fjóra unglingspilta var að ræða, þrjá fædda árið 1995 og einn árið 1993. Þeir höfðu læst starfsmann inni, stolið peningum og strokið á stolnum bíl. Starfsmanninum tókst að gera vart við sig. Lýst var eftir piltunum og fundust þeir á gistiheimili á Akureyri og voru þeir sendir aftur í vistun, tveir þeirra á meðferðarheimilið Stuðla og hinir á Háholt.