Yfirvofandi verkfall leikskólakennara

Þar sem ekki náðust sættir á samningafundi Félags leikskólakennara (FL) og Samninganefndar sveitarfélaganna (SNS), sem haldinn var fyrr í dag, eru þónokkrar líkur á verkfalli leikskólakennara á mánudaginn kemur. Ríkissáttasemjari hefur kallað til annars fundar á morgun, laugardag kl. 11.

Yfirvofandi verkfall kemur til með að hafa mikil áhrif á atvinnulífið þar sem margir foreldrar leikskólabarna þurfa að vera heima fyrir með börn sín á meðan leikskólastarfið liggur niðri.

Leikskólastarf leggst alveg niður

Í Skagafirði starfa þrír leikskólar. Ársalir á Sauðárkróki, Birkilundur í Varmahlíð, Tröllaborg, sem er sameinaður leikskóli Barnaborgar á Hofsósi, Brúsabæjar á Hólum og Bangsabæjar í Fljótum.

Á Ársölum búa starfsmenn sig nú undir verkfall, en þar starfa 47 manns, þar af eru 24 leikskólakennarar og þrír leikskólakennaranemar sem útskrifast von bráðar. Þar starfa einnig grunn- og framhaldsskólakennarar sem greiða í FL.

Í leikskólanum eru níu deildir, sem koma allar til með að vera lokaðar á mánudag að öllu óbreyttu. Samkvæmt Sonju Sif Sigurðardóttur, aðstoðarleikskólastjóra á eldra stigi, er mikill baráttuhugur í leikskólakennurunum. „Nú er bara að fylgjast með fréttum og sjá hvort við komum til með að mæta til vinnu á mánudag.“

Jákvæðni í garð baráttunnar

Á Birkilundi í Varmahlíð starfa tvær deildir sem verða báðar lokaðar á mánudag ef samningar nást ekki um helgina. Þar starfa tíu starfsmenn og þrjár þeirra eru félagar í FL.

„Við höfum fundið fyrir stuðningi frá almenningi og jákvæðni í garð baráttunnar. Það er sjálfsagt mál að leikskólakennarar fái samskonar laun og aðrir. Við vonum auðvitað bara að þetta leysist sem fyrst.“  sagði Steinunn Arnljótsdóttir leikskólastjóri á Birkilundi.

Tröllaborg skiptist í þrjá leikskóla, Barnaborg á Hofsósi, Brúsabæ á Hólum og Bangsabæ í Fljótum. Lokað verður á Hofsósi og á Hólum en opið í Fljótum. Í Barnaborg starfa fimm manns, þar af er einn leikskólakennari og í Brúsabæ eru þrír starfsmenn, þar af einn leikskólakennari. Starfsmaður Bangsabæjar í Fljótum er hins vegar ekki félagsmaður í FL og því ekki á leið í verkfall.

Lokað þar til álit félagsdóms liggur fyrir

Í Austur Húnavatnssýslu eru starfandi þrír leikskólar. Það eru Barnaból á Skagaströnd, Barnabær á Blönduósi og Vallaból á Húnavöllum.

Barnaból á Skagaströnd er með tvær deildir og koma þær báðar til með að verða lokaðar á mánudag ef ekki verður samið. Þar starfa ellefu manns og eru tveir félagsmenn í FL.

„Við vonum auðvitað að deilan leysist sem fyrst en hér verður lokað á mánudag ef af verkfallinu verður, eða þar til álit félagsdóms liggur fyrir.“  sagði Þórunn Bernódusdóttir, leikskólastjóri á Barnabóli. Vísar hún þar til ágreinings á milli FL og SNS um framkvæmd verkfallsins. Ágreiningurinn snýst um hvort loka megi deildum þar sem deildarstjórar eru í FL eða hvort ófaglærðir mega ganga í þeirra störf. Yfirlýsingu SNS má sjá hér.

Harka og samstaða meðal stéttarinnar

Á Barnabæ á Blönduósi eru starfandi fjórar leikskóladeildir. Þrjár þeirra koma til með að verða lokaðar en ein þeirra, Hólabær verður opin.

Jóhanna G. Jónasdóttir, leikskólastjóri á Barnabæ vill benda foreldrum á að fylgjast með fréttum. „Ef þetta leysist, sem við vonum innilega, þá mætum við á mánudaginn með bros á vör.“

Leikskólastarfið á Vallabóli, á Húnavöllum, kemur einnig til með að liggja niðri. Þar eru tveir starfsmenn og annar þeirra í FL. Að sögn Þórunnar Ragnarsdóttur, deildarstjóra á Vallabóli, er hart að þurfa að fara í verkfall en hún segir leikskólakennarar eiga inni samninga þar sem þeir urðu á eftir í kreppunni árið 2008.

„Harka og samstaða ríkir meðal stéttarinnar. Það er frábært að finna stuðninginn frá fólki og vonandi verður hann áfram, en það er í raun ekki farið að reyna á það ennþá.“ bætti Þórunn við.

Í Vestur Húnaþingi er leikskólinn Ásgarður og er hann staðsettur á Hvammstanga. Þar starfa um 14 manns og eru tveir þeirra í FL. Þar eru þrjár deildir og koma tvær þeirra til með að verða lokaðar. Að sögn Önnu Jónasdóttur, starfsmanns leikskólans, verður deild yngstu barnanna, Rauðigarður, hins vegar opin.

Fleiri fréttir