Brúðulistahátíðin HIP Fest á Hvammstanga - Hátíðardagskrá í heimsklassa

Alþjóðleg brúðulistahátíð International Puppetry Festival eða HIP Fest fer fram dagana 8.-10. október næstkomandi. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin en von er á þriðja tug erlendra listamanna frá átta löndum sem bjóða upp á fjölda sýninga og vinnusmiðja, auk fyrirlestra og kvikmyndasýninga með umræðum við listamennina á eftir.

Það er Greta Clough sem heldur utan um þessa metnaðarfullu brúðulistahátíð og segir hana setta á stofn þar sem hún hafði séð víða um heim þau miklu áhrif sem metnaðarfullar brúðulistahátíðar hafa haft á nærsamfélag sitt. „Gjarnan eru þessar hátíðir ekki haldnar í höfuðborgum. T.d. er ein mikilvægasta brúðuhátíð heims haldin í Charleville, en það er rúmlega 47.000 manna bær í Frakklandi, þegar brúðulistahátíðin stendur yfir koma 150.000 gestir á hátíðina. Hugsið ykkur hvaða áhrif það hefur að fá þrefaldan íbúafjölda bæjarins í vikuheimsókn. Ekki bara með fólki sem keyrir í gegn, heldur fólki sem dvelur og nýtur allan tímann,“ segir Greta og bendir á að markmiðið sé að til Hvammstanga komi hátt í 2.000 gestir á hátíðina í framtíðinni.

„Háleitt langtímamarkmið, en nokkuð sem við trúum að sé raunhæft. Metnaðarfullar og faglegar alþjóðlegar listahátíðar skila nærsamfélaginu sínu ekki aðeins gífurlegum tekjum í formi gistinga og veitinga, heldur koma þær fámennum stöðum á kortið og styrkja bæði ímynd staðanna og sjálfsmynd þeirra.“

Greta segir hátíðina ætluð öllum aldurshópum. Um helmingur hátíðardagskrárinnar er sniðinn að fjölskyldum og hægt er að kaupa Krakkakort sem veitir aðgang að öllum barnasýningunum. Auk þess eru vinnusmiðjur fyrir börn. „Fyrir fullorðna eru líka sýningar og vinnusmiðjur í boði, ögrandi og öðruvísi dagskrá. Við trúum því að dagskráin bjóði upp á frábæra upplifun fyrir alla aldurshópa, burtséð frá því hvort fólk fari oft að sjá brúðuleikhús eða ekki.“

Er hægt að benda á einhvern hápunkt hátíðarinnar?
„Í rauninni ekki, og við sem stöndum að hátíðinni hlökkum öll mest til mismunandi sýninga. Kannski er það óvanalegasta í ár belgíska barnasýningin Yuto og tréð, en þar eru áhorfendur leiddir í gegnum völundarhús, einn í einu, með heyrnartól á höfðinu þar sem sögð er sagan á misjöfnum stöðum í rýminu. Það verður áskorun að koma þessari sýningu upp og mikið tilhlökkunarefni að sjá hvernig áhorfendur okkar bregðast við svona óvanalegri nálgun.“

Listamennirnir sem taka þátt eru á þriðja tug og frá átta þjóðlöndum og segir Greta þátttöku þeirra hafa komið til með tvennum hætti. „Annars vegar er um að ræða sýningar og listamenn sem við þekkjum og treystum, verk sem við höfum séð í störfum okkar á alþjóðavettvangi. Við höfum þá haft frumkvæðið með að hafa samband við þessa listamenn og reynt að finna leiðir til að koma þessum sýningum til landsins. Hinsvegar er um að ræða aðila sem sóttu um að fá að koma til okkar, listamenn sem sáu okkur auglýsa eftir verkum.“

Greta segir það hafa vakið mikla athygli í alþjóðasamfélagi brúðulistamanna að það skyldi hafa tekist að halda hátíðina í fyrra, í miðjum heimsfaraldri, áður en nokkur bóluefni komu á markað. „Það hrúguðust því inn hjá okkur umsóknirnar og það var úr vöndu að ráða að velja sýningar inn á hátíðina. Það kostar mikla yfirlegu og gaumgæfni að setja saman svona vandaða dagskrá. Við trúum því að í ár séum við að bjóða upp á hátíðardagskrá í heimsklassa í heimabyggð. Hvað gæti verið betra?“

Að starfrækja brúðulistahús á litlum stað eins og Hvammstanga fylgja miklir kostir, að sögn Gretu en ýmsir gallar líka. Hún segir ómögulegt að lifa af áhorfendahópnum í þorpinu, það segi sig sjálft. Til að bregðast við því er haldið í með sýningarnar en slíkt er alvanalegt í brúðuleikhúsheiminum. „Þá er gott að geta unnið á stað þar sem kostnaðurinn við æfingahúsnæði er lítill og nægt rými. Hin leiðin til tekjuöflunar er að búa til efni sem við síðan seljum, myndefni til birtingar á vefsíðum og streymisveitum. Heimsfaraldurinn hefur hraðað því að starfsemi Handbendi flytjist meira í þá átt. Við erum líka afar stolt af grasrótarstarfinu okkar með æsku sveitarfélagsins,“ segir Greta.

Sviðslistir hafa átt undir högg að sækja í heimsfaraldrinum um heim allan og segir Greta þær jafnvel hafa verið í hreinni útrýmingarhættu. Ekki séu margar starfsgreinar sem hreinlega hefur verið bannað að vinna, meira og minna, í hálft annað ár. Hún telur stuðning stjórnvalda við sjálfstæða menningargeirann hefði mátt miðast við það að engin önnur starfsgrein hefur þurft að sæta öðrum eins takmörkunum. „Því miður var sú leið ekki farin; vonandi er greinin ekki vængbrotin til framtíðar. Við erum samt afar stolt af því að hafa, samt sem áður, tekist að vinna tvö mikilvæg verkefni í heimabyggð: Útvarpsleikhús æskunnar og Sumarleikhús æskunnar, auk þess að hafa framleitt stafrænt myndefni fyrir heimsmarkað. Við höfum því náð ákveðnum árangri í starfseminni sem við megum vera stolt af, þrátt fyrir að tekjuöflunarmöguleikarnir hafi verið ansi hreint nánasarlegir.“

Engin hátíð gengur upp án stuðnings
Handbendi – Brúðuleikhús er núverandi Eyrarrósarhafi og segir Greta það mikinn heiður og gaman að vera fyrsti Eyrarrósarhafinn á Norðurlandi vestra. Hún segir einnig ánægjulegt að vera fyrst til að hljóta verðlaunin í breyttri mynd, en nú eru þau veitt annað hvert ár. „Handbendi verður því Eyrarrósarhafinn til 2023 þegar nýr aðili fær þann heiður við hátíðlega athöfn hér á Hvammstanga. Í alþjóðlegu samhengi skiptir miklu máli að hafa fengið verðlaun og viðurkenningar bæði í heimalandinu og víða um heim en við höfum líka unnið til verðlauna erlendis. Þannig að Eyrarrósin hefur mikið gildi fyrir okkur og við erum afar stolt af þeim verðlaunum, eins og öllum þeim sem við höfum fengið í gegnum tíðina.“

Auk þess að hafa fengið Eyrarrósina var HIP Fest valinn menningarviðburður ársins á Norðurlandi vestra árið 2020. Hvernig skyldi upplifunin vera að að hafa svo eftirtektarverð menningarverkefni í höndunum?

„Gaman að heyra að ykkur þyki verkefnin eftirtektarverð! Þessi starfsemi byggist öll á áratugum af menntun, reynslu og tengslum. Það er einhvern veginn þannig, kannski því miður, að maður er of upptekinn við að láta hlutina virka og ganga upp til að horfa yfir sviðið og átta sig á því að maður sé að gera eitthvað merkilegt. Engin hátíð gengur upp án stuðnings heimafólks, og fyrirtækja og stofnana í héraði. Við höfum fundið mikinn stuðning nú þegar, en mikilvægasti stuðningurinn sem við getum fengið er samt sá að fá áhorfendur í hús. Þannig að við hvetjum fólk til að kíkja inn á Tix og kaupa miða. Ef fólk heldur að þetta sé algert rugl, og ekkert fyrir sig, þá skorum við á viðkomandi að koma á þó ekki væri nema eina sýningu, og gefa okkur tækifæri til að snúa þeim. Þetta verður svakalega gaman, er algerlega einstök hátíð á landsvísu, og gerist akkúrat hér: á Norðurlandi vestra.“

Það er einmitt málið. Svona hátíð gerist ekki af sjálfu sér og um að gera að fólk á Norðurlandi vestra mæti og upplifi töfra leikhússins. Dagskrá hátíðarinnar má gaumgæfa á heimasíðu hennar, thehipfest.com eða Facebooksíðu. Miðasala fer svo fram á tix.is.

Áðir birst í 35. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir