Júróvisjónþema Sóldísar á konudaginn

Næstkomandi sunnudag verða haldnir hinir árlegu konudagstónleikar kvennakórsins Sóldísar sem að þessu sinni bera yfirskriftina Eitt lag enn. Það minnir óneitanlega á Júróvisjón enda Eitt lag enn, Harðar Ólafssonar, fyrsta íslenska framlag Íslands sem blandaði sér í toppbaráttuna í aðalkeppninni. Jú, það verður einmitt Júró þema, með glimmer og gleði.

„Við erum með Eurovision lög á dagskránni og það er alltaf gleði í kringum Eurovision og ekki síður glimmer. Helgu Rós, kórstjóra og okkur í kórnum, fannst þessi lög kalla á hljómsveit og hann Rögnvaldur okkar fékk góða spilara með í bandið,“ segir Drífa Árnadóttir, formaður kórsins sem lofar skemmtilegum tónleikum með ýmsum Eurovisionlögum, bæði gömlum og nýjum. „Konudagurinn er á sunnudaginn, er þá ekki tilvalið að skreppa í Miðgarð á skemmtilega tónleika og glæsilegt kaffihlaðborð?“ spyr hún og svarið er einfalt: Jú, það er alveg tilvalið!

Sem fyrr stjórnar Helga Rós Indriðadóttir söng kórsins og Rögnvaldur Valbergsson fer fyrir hljómsveitinni sem auk hans er skipuð þeim Steini Leó Sveinssyni og Sigurði Björnssyni. Á fiðlu leikur Kristín Halla Bergsdóttir og Anna Karítas Ingvarsdóttir blæs í þverflautu. Einsöngvarar eru þær Elín Jónsdóttir, Ólöf Ólafsdóttir og systurnar Gunnhildur og Kristvina Gísladætur.
Að loknum söng kórsins verður boðið upp á margfrægt veisluborð kórskvenna.

Tónleikarnir eru haldnir í Menningarhúsinu Miðgarði sunnudaginn 19. febrúar og hefjast klukkan 15.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir