Stuðningsfólk og leikmenn boðaðir á uppskeruhátíð KKD Tindastóls

Uppskeruhátíð körfuknattleiksdeildar Tindastóls verður haldin laugardaginn 11. maí nk. í Síkinu. Húsið opnar kl 19:00 og skemmtunin hefst kl 19:30. Í tilkynningu frá deildinni segir að um kjörið tækifæri að ræða fyrir alla velunnara, stuðningsmenn og leikmenn Tindastóls til að þjappa sér saman eftir tímabilið og njóta samverunnar en allir eru velkomnir.

Aðgangseyrir er aðeins 5.000 kr. sem gildir fyrir skemmtun, mat og ball. Boðið verður upp á úrvals kjöt og meðlæti frá KS sem grillmeistarar deildarinnar munu framreiða ofan í gesti. 
Hinn síhressi orkubolti Hlynur Ben ætlar svo að halda utan um dagskrána ásamt því að spila fyrir dansi fram á rauða nótt. Fyrir þá sem eru aðeins á dansskónum verður hægt að kaupa sig bara inn á ballið. Miðasala hófst í gær og hægt að nálgast miða í Tánni, Skagfirðingabraut 6 á Sauðárkróki.

Áfengi verður ekki selt á staðnum en það verður úrvals bland til sölu, segir á Facebooksíðu deildarinnar. Gestum er frjálst að taka með sér skemmtivökva en 18 ára aldurstakmark er á viðburðinn. „Fjölmennum í Síkið og njótum samverunnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir