8,5% íbúa Norðurlands vestra eru erlendir ríkisborgarar

Hlutfall erlendra ríkisborgara eftir landshlutum. Mynd: skra.is
Hlutfall erlendra ríkisborgara eftir landshlutum. Mynd: skra.is

Þjóðskrá Íslands hefur gefið út tölur yfir hlutfall erlendra ríkisborgara eftir sveitarfélögum og landsvæðum. Þar kemur fram að hlutfallið er afar mismunandi eftir sveitarfélögum. Hæst er það í Mýrdalshreppi þar sem 44% íbúa hefur erlent ríkisfang eða 319 af 717 íbúum hreppsins þann 1. desember sl. Það sveitarfélag sem hefur lægst hlutfall erlendra ríkisborgara er Svalbarðshreppur en aðeins einn íbúi hreppsins hefur erlent ríkisfang sem ígildir einu prósenti íbúanna.

Sé litið til landshluta búa hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar á Suðurnesjum eða 24 prósent. Hlutfallið er hins vegar lægst á Norðurlandi vestra, 8,5%, og á Norðurlandi eystra þar sem það er 8,2%. Pólverjar eru sem fyrr langfjölmennasti hópurinn, rúmlega 20 þúsund manns, og Litháar eru í öðru sæti. Rúmenum hefur fjölgað mest hlutfallslega eða um 15%. Alls hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um rúmlega fimm þúsund á einu ári og nálgast nú 50 þúsunda markið.

Á Norðurlandi vestra búa flestir erlendir ríkisborgarar í Sveitarfélaginu Skagafirði eða 290 manns sem gerir 7% af íbúafjölda sveitarfélagsins. Hlutfall erlendra ríkisborgara er hæst í Blönduósbæ, 14% eða 132 íbúar, og næst í Húnaþingi vestra, 10% íbúa sem eru 122 einstaklingar. Á Skagaströnd búa 33 með erlent ríkisfang sem gerir 7% íbúa, í Húnavatnshreppi 22 sem eru 6%, í Akrahreppi 19 sem er hlutfallstala upp á 9% og í Skagabyggð búa þrír erlendir ríkisborgarar eða 3% íbúa.

Sjá nánar hér á vef Þjóðskrár Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir