Á íslensku má alltaf finna svar!

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lásu í gærmorgun inn á tölvuforrit sem safnar röddum Íslendinga til að nota í samskiptum við snjalltæki framtíðarinnar. Kristinn Ingvarsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lásu í gærmorgun inn á tölvuforrit sem safnar röddum Íslendinga til að nota í samskiptum við snjalltæki framtíðarinnar. Kristinn Ingvarsson.

„Á íslensku má alltaf finna svar,“ las frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands í gærmorgun inn á tölvuforrit sem safnar röddum Íslendinga til að nota í samskiptum við snjalltæki framtíðarinnar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lásu svo hinar þrjár línurnar úr kvæði Þórarins Eldjárn um íslenskuna. Þannig lána þau sínar raddir til máltæknilausna sem nú eru í smíðum.

Raddsýnasöfnunin fór fram við upphaf ráðstefnu sem haldin var í Veröld – húsi Vigdísar í gær og segir í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu að vægi tungumálsins aukist stöðugt í samskiptum okkar við tölvur og tæki. Máltækni fangar samvinnu og samspil tungumálsins og tölvutækninnar en þróun hennar miðar að því að tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi. Á ráðstefnunni komu fyrirtæki og fræðimenn saman til þess að greina þau tækifæri sem máltækni fyrir íslensku felur í sér fyrir ýmsar tegundir þjónustu. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna og sagði meðal annars:

„Ég vil hvetja alla til að ljá íslenskri máltækni raddir sínar á vefsíðunni samrómur.is og taka þannig þátt í máltækniverkefninu. Stjórnvöld leggja áherslu á uppbyggingu innviða, nýsköpun og samstarf með því verkefni en afurðir máltækniverkefnisins verða tæknilausnir sem munu hjálpa okkur að tryggja stafræna framtíð móðurmálsins.“

Meðal þess sem fræðast mátti um á ráðstefnunni var máltækni í fjármálaþjónustu og fjölmiðlun og notkun raddgreiningar í heilbrigðisþjónustu. Nemendur við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík taka þátt í þeim hluta máltækniverkefnisins sem snýr að söfnun sýnishorna af málnotkun almennings en nánar má fræðast um það verkefni á vefnum www.samromur.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir