Aksturstími skólabifreiða lengdur um 40 mínútur á dag

Vatnsnesvegur. Mynd: Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir.
Vatnsnesvegur. Mynd: Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir.

Aksturstími skólabifreiða um Vesturhóp hefur nú verið lengdur um 20 mínútur á hvorri leið að því er kemur fram í tilkynningu frá Grunnskóla Húnaþings vestra í morgun. Ástand vegarins er nú þannig að ekki er mögulegt að aka veginn nema mjög rólega og mun lengingin vara þar til lagfæringar hafa verið gerðar á veginum. Við þetta lengist heildartíminn sem skólabörn á svæðinu þurfa að vera í bílnum um 40 mínútur á dag.

Ástand vegarins er nú verulega slæmt eftir langan rigningakafla og duga lagfæringar skammt í slíku tíðarfari. Í síðustu viku komu íbúar á Vatnsnesi saman við bæinn Illugastaði á vestanverðu Vatnsnesi og reistu þar skilti með skilaboðum til ferðamanna og til stendur að fleiri slík verði sett upp. Að Illugastöðum koma um 600 ferðamenn á dag yfir sumartímann en þar ákjósanlegur staður til selaskoðunar auk þess að vera frægur sögustaður.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sl. föstudagskvöld var rætt við Guðrúnu Ósk Steinbjörnsdóttur, íbúa á Vatnsnesi, sem segir aðgerðirnar vera til þess fallnar að vekja athygli á ástandinu. „Við erum að hvetja ferðamenn til að taka þátt í baráttunni með okkur með því að taka mynd af náttúruperlum sem er að finna hér um svæðið, merkja þær með myllumerkinu okkar #vegur711 og benda á ástand vegarins,“ sagði Guðrún.

Í sumar var Norðurstrandarleið opnuð formlega en hún er hugsuð sem leið fyrir ferðamenn sem vilja sækja aðrar slóðir en þær sem teljast til alfaraleiðar. Á sumrin fara um 400 bílar um Vatnsnesveg og er hann einn umferðarþyngsti malarvegur landsins. Vegurinn hefur samt ekki ratað inn á samgönguáætlun stjórnvalda. „Ekki svo við vitum. Við auðvitað bindum ofboðslega miklar vonir við að núna þegar samgönguáætlun verður endurskoðuð að nafn okkar komi þar fram. Það er alveg illskiljanlegt, finnst okkur íbúum, að þær leiðir sem skólabíll þarf að fara skuli ekki vera í forgangi,“ segir Guðrún í samtali við RÚV. Hún segir þurrt sumar hafa gert ástandið þolanlegt en nú sé annað uppi á teningnum. „Eins og staðan er núna  þá er hún auðvitað mjög slæm. Það er búið að rigna hérna í marga daga, og það kom líka rigningakafli í ágúst. Vegagerðin reynir eins og hún getur að bregðast skjótt við, en hann er mjög fljótur að fara í slæmt ástand,“ segir Guðrún.

Þá var rætt við Kristmund Ingþórsson, skólabílstjóra, sem ekið hefur börnum til og frá skóla frá árinu 1972 og segir hann veginn vera skelfilegan og álagið á undirvagn bifreiðarinnar vera mikið. „Vegagerðin var að hefla veginn núna eftir helgina, hann var orðinn alveg rosalegur, kaflar í honum. En hann er að fara aftur þegar það eru svona miklar bleytur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir