Bætur vegna tjóns á búnaði og keyrslu varaaflsvéla

RARIK mun koma til móts við þá viðskiptavini sem urðu fyrir rafmagnsleysi í hinu fordæmalausa illviðri sem brast á 10. desember sl. en hægt er að sækja um bætur vegna keyrslu varaaflsvéla og tjóns á búnaði á heimasíðu fyrirtækisins.

Á rarik.is segir að ýmsir hafi orðið fyrir kostnaði vegna olíu- og gasnotkunar við framleiðslu á rafmagni eða við upphitun og því hægt að sækja um endurgreiðslu á þeim kostnaði með því að fylla út eyðublað sem nálgast má HÉR. 

Ennfremur kemur fram að venju samkvæmt bætir RARIK tjón á rafbúnaði viðskiptavina sem verður vegna spennusveiflna í rafmagnstruflunum. Þeir sem hafa orðið fyrir slíku geta fyllt út kvörtunareyðublað HÉR.

Nú eru rétt þrjár vikur liðnar síðan óveðrið mikla gekk yfir landið 10.-11. desember síðastliðinn og voru afleiðingar þess miklar, sérstaklega á Norðurlandi og tók RARIK saman það helsta sem laskaðist og raskaðist hjá þeim og Landsneti en eins og allir ættu muna olli veðrið umtalsverðu tjóni á línukerfum RARIK og Landsnets og hafði víðtækar rafmagnstruflanir í för með sér.

Segir á heimasíðu fyrirtækisins að kerfið sé nokkuð laskað eftir þennan mikla hvell og þoli líklega minna en ella á næstunni. „Í Húnavatnssýslum varð mest straumleysi vegna ísingar og seltu í aðveitustöð byggðalínu í Hrútatungu, en einnig urðu bilanir í dreifikerfi RARIK. Talsvert var um staurabrot, línuslit og seltu á Hrútafjarðarlínu, Heggstaðanesi, Vatnsnesi og í Vestur-Hópi. Einnig urðu truflanir í Svartárdal, Blöndudal og í Svínadal.

Í Skagafirði fór lína Landsnets til Sauðárkróks út og þar með varð Sauðárkrókur straumlaus. Varaaflsvélar voru keyrðar þar, en Gönguskarðsárvirkjun sem er í bænum bilaði og gat þar af leiðandi ekki komið til aðstoðar og því varð skömmtun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Bilun í Glaumbæjarlínu olli talsverðu straumleysi og sömuleiðis fóru illa línurnar út á Skaga og á Reykjaströnd.“

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir