Drög að sóknaráætlun Norðurlands vestra birt í samráðsgátt stjórnvalda

Undanfarið hefur verið unnið að nýjum sóknaráætlunum landshlutanna sem munu ná yfir tímabilið 2020-2024. Drög að nýjum sóknaráætlunum verða birtar í samráðsgátt stjórnvalda og er það í fyrsta sinn sem mál utan ráðuneyta eru birt þar. Nú þegar hafa sóknaráætlanir þriggja landshluta verið birtar í samráðsgáttinni, Suðurlands, Vestfjarða og nú síðast Norðurlands vestra.

Í samráðsgáttinni segir að við vinnslu sóknaráætlunar Norðurlands vestra hafi mikil áhersla verið lögð á samráð við íbúa svæðisins enda séu þeir sérfræðingar í málefnum landshlutans. Einnig var gengið út frá fyrirliggjandi gögnum um stöðu svæðisins, svo sem niðurstöðum íbúakannana, fyrirtækjakönnunar, gögnum frá þjóðskrá, Byggðastofnun o.fl.

Fjórir íbúafundir voru haldnir í tengslum við gerð Sóknaráætlunarinnar. Þrír þeirra voru minni fundir sem settir voru upp í hverri sýslu, V-Húnavatnssýslu, A-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu, og komu um 20 manns á hvern þessara funda. Einnig var haldinn stórfundur fyrir allt svæðið og sóttu þann fund um 70 manns. Þessu til viðbótar var við upphaf vinnunnar gerð íbúakönnun og tóku um 320 manns þátt í henni. Það má því segja að á fimmta hundrað íbúa Norðurlands vestra hafi komið að gerð áætlunarinnar með einum eða öðrum hætti. Allir voru fundirnir opnir öllum íbúum svæðisins.

Sóknaráætlun Norðurlands vestra mun stýra ákvörðun um val á áhersluverkefnum og úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði landshlutans.

Opið verður fyrir athugasemdir og ábendingar um drög að sóknaráætlun Norðurlands vestra til og með 14. október næstkomandi. Íbúar og aðrir hagaðilar eru hvattir til að kynna sér nýja sóknaráætlun landshlutans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir