Dýrmætt stig hjá Kormáki/Hvöt í 4. deildinni

Kormákur/Hvöt gerði fína ferð til Stykkishólms
Kormákur/Hvöt gerði fína ferð til Stykkishólms

Á Hvítasunnudag fór fram einn leikur í 4.deild karla, þegar Snæfell fékk Kormák/Hvöt(K/H) í heimsókn á Stykkishólmsvelli. Fyrir leikinn voru Snæfell með níu stig í öðru sæti og ekki tapað leik, en Kormákur/Hvöt í því þriðja með sex stig eftir tvo góða sigra í seinustu tveim leikjum.

Goðsögnin Ingvar Magnússon þurfti að stýra liði K/H því þjálfarar liðsins þeir Bjarki Már og Hámundur Örn voru sjálfir að spila. Ingvar þurfti að taka fram gömlu góðu þjálfarabókina fram og rifja upp gamla takta.

Leikurinn fór vel af stað fyrir K/H þegar sóknarmaðurinn Diego Moreno Minguez náði að krækja í vítaspyrnu á tólftu mínútu leiksins. Það var Ingvi Rafn Ingvarsson sem fór á punktinn og skoraði úr vítaspyrnunni. Á 28. mínútu fengu Snæfell hornspyrnu og var það Julio C. Fernandez De La Rosa sem náði að skora úr henni og staðan 1-1 í hálfleik.

Á 63. mínútu urðu K/H menn fyrir því óláni að tapa boltanum klaufalega á miðjunni, ein sending í gegnum vörnina þýddi að Matteo Tuta var kominn einn á móti markmanni og náði hann að skora og koma Snæfelli yfir í leiknum 2-1. Í uppbótartíma fengu K/H hornspyrnu, boltinn kom inn í teig og var það Bjarki Már sem náði að flikka boltanum á Ingva Rafn Ingvarsson sem náði að jafna leikinn undir blálokinn. Lokatölur 2-2.

Bæði lið halda sínum sætum í deildinni og er næsti leikur hjá K/H á móti Hvíta Riddaranum sem eru á toppnum í deildinni. leikurinn verður spilaður á Blönduósvelli föstudaginn 14. júní klukkan 20:00.

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir