Gærurnar mubbluðu upp setustofu dreifnámsins á Hvammstanga
Í byrjun árs keypti Húnaþing vestra nýja sófa í setustofu nemenda í dreifnámi FNV á Hvammstanga. Nemendur höfðu áhuga á að gera setustofuna aðeins huggulegri og brugðu á það ráð að senda styrkbeiðni til Gæranna sem brugðust vel við og réttu fram hjálparhönd.
Gærurnar er hópur kvenna sem heldur úti nytjamarkaði á Hvammstanga og lætur góð málefni í heimabyggð njóta ágóðans og á Facebooksíðu dreifnámsins segir að þær hafi brugðist skjótt við og innan viku voru komnar mottur, gluggatjöld, tvö borð, púðar og mynd í setustofuna sem orðin er afar hlýleg. „Þess má geta að stór hluti af gömlu húsgögnunum komu frá nytjamarkaðnum á sínum tíma og hafa því þjónað tilgangi sínum mjög vel. Hjartans þakkir fyrir okkur!“ segir í færslu dreifnámsins.