Gærurnar styrkja Bardúsu og eldri borgara
Góðgerðasamtökin Gærurnar, sem reka Nytjamarkað í gömlum gærukjallara á Hvammstanga á sumrin, fóru á stúfana á dögunum með gjafabréf í fórum sínum. Annað gjafabréfið afhentu þær Félagi eldri borgara í Húnaþingi vestra að upphæð 150.000 kr. sem notaðar verða til kaupa á hægindastólum fyrir Félag eldri borgara.
Hitt gjafabréfið fékk Verslunarminjasafn Bardúsa að upphæð kr. 100.000,- sem verða notaðar í uppsetningu á nýrri lýsingu á safninu. Þetta er í fjórða sinn sem nytjamarkaðurinn er rekinn en allar vörur sem seldar eru fá Gærurnar gefins, að mestu leyti frá íbúum sveitafélagsins. Allur ágóði rennur svo til góðgerðamála í sveitafélaginu.
/HH