Gott að grípa í að hekla borðtuskur

Eydís Bára í peysu sem hún hafði nýlokið við. Aðsendar myndir.
Eydís Bára í peysu sem hún hafði nýlokið við. Aðsendar myndir.

Í 47. tölublaði Feykis árið 2017 var kíkt í handavinnuhornið hjá Eydísi Báru Jóhannsdóttur sérkennara á Hvammstanga. Áhugi hennar á hannyrðum kviknaði um 25 ára aldurinn og síðan hefur hún verið iðin við margs konar handverk þó peysuprjón sé það sem hún hefur verið duglegust við. Eydís segir að það hafi reynst henni vel að sækja góð ráð móður sinnar og mælir með því að vera duglegur að leita ráða hjá öðrum, eða á netið, ef á þarf að halda.

”Peysa sem kom til mín í draumi og ég bara varð að prjóna. Teppið undir peysunni er þó handverk ömmu minnar,” segir Eydís um þessa mynd.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég lærði auðvitað hannyrðir í grunnskóla eins og flestir aðrir en get kannski ekki endilega sagt að ég hafi verið sérstaklega áhugasöm um þær á þeim tíma, þó að það hafi í sjálfu sér gengið ágætlega hjá mér. Á unglingsárum kom stutt tímabil þar sem mig langaði að prófa að sauma mér sjálf einhver föt og það tókst með ágætum, þó með dyggri aðstoð móður minnar en það tímabil gekk mjög fljótt yfir. Ætli það hafi svo ekki verið í kringum 25 ára aldurinn sem ég fann að áhuginn á hannyrðum fór að aukast og hefur það þá aðallega verið prjónaskapur, hekl og útsaumur (þó mun minna). Þegar ég var að taka upp þráðinn þar sem ég hætti í grunnskóla reyndist mér mjög vel að leita til móður minnar enda er hún mjög flink í höndunum og hefur getað kennt mér allt sem ég hef viljað læra og ef maður hefur ekki mömmu þá hefur maður alltaf annað gott fólk í kringum sig til að kenna manni, já eða youtube.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?

Bróðurbörn Eydísar í peysum frá henni.

Ég hef mest verið í því að prjóna peysur og þykir mér það mjög skemmtilegt. Ég hef nýlokið við peysu á sjálfa mig en er um þessar mundir aðallega í því að hekla borðtuskur því að mínu mati er ekki hægt að fá betri borðtuskur, auk þess sem það er eitthvað sem er gott að grípa í á kaffistofunni, fundum og þess háttar. 

Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?

Ég, eins og sjálfsagt flestir, er yfirleitt mis ánægð með það sem ég geri og ég held að það sé í sjálfu sér ekkert eitt sem ég er ánægðust með.

Eitt af nokkrum ungbarnateppum sem Eydís hefur heklað.Þessa skírnarklukkustrengi saumaði Eydís út fyrir systurbörn sín.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir