Græn stemmning við vigtarskúrinn

Föstudaginn 14. júní sl. var Gróðurhúsið Reykjum í Hrútafirði með sína árlegu sölu við vigtarskúrinn hjá KVH á Hvammstanga. Hulda Einarsdóttir, hjá gróðurhúsinu, segir söluna hafa gengið mjög vel og að töluverð stemmning myndist við vigtarskúrinn.

"Sumir bíða hreinlega eftir þessu og svífa strax á blómin, nærri því áður en við náum þeim öllum út úr kerrunni", sagði Hulda í viðtali við Norðanátt.is í gær.

Gróðurhúsið Reykjum. Mynd: Norðanátt.is

Gróðurhúsið Reykjum ræktar allar algengustu tegundir af sumarblómum, matjurtir (þ.e.a.s. salat- og káltegundir til framhaldsræktunar), kryddjurtir, jartðarberjaplöntur og berjarunna. Einnig selja þau tré og runna sem ræktuð eru norðanlands, fjölær blom, potta og Hrútfirska mold. "Svo má ekki gleyma gulrótunum, sem sáð var til í lok janúar og við förum að uppskera nú bráðlega", bætir Hulda við.

Hulda segir ræktunina hafa gengið vel í vor. "Maí var reyndar frekar sólarlítill og kaldur mánuður, eins og oft áður, en á móti kom að júní er búinn að vera mjög mildur og það þýðir aukin sala á plöntum."

Gróðurhúsið Reykjum er opið alla daga í júní frá 14.00-18.00.
Í júlí er opið eftir samkomulagi.

Fleiri fréttir