Gúllassúpa með focaccia brauði

Matgæðingurinn Sólborg Indíana. Aðsend mynd.
Matgæðingurinn Sólborg Indíana. Aðsend mynd.

Sólborg Indíana Guðjónsdóttir var matgæðingur Feykis í 40. tbl. 2017:
„Ég  ólst upp í firðinum fagra og á mikla tengingu þangað.   Í dag eyði ég nær öllum mínum frítíma þar. Matur hefur alltaf verið mér ofarlega í huga og hef alltaf borðað vel. Bestu stundir lifsins eru líklega tengdar mat af einhverju leyti.  Margar sögur eru til af mér í eldhúsinu og standa tvær líklega upp úr. Önnur fjallar um það þegar ég sauð upp af kartöflunum og brenndi þær. Hin er þegar ég bauð systur minni, sem er kokkur, í mat og hafði pakkapasta,“ segir skagfirski matgæðingurinn Sólborg Indíana. Hún gefur okkur uppskrift af gúllassúpu sem hún segir að hafi verið elduð oft á hennar heimili við ýmis tilefni. „Hún er einföld og bragðgóð. Ég fékk uppskriftina í upphafi af Eldhússögum. Ég hef ég lika oft Focaccia brauð með, sem einfalt í bakstri,“ segir Sólborg.

RÉTTUR 1
Gúllassúpa

600 g gúllas
1 rauð paprika, skorin í bita
1 gulur laukur
ca. 6 meðalstórar kartöflur
ca. 3 meðalstórar gulrætur
1 msk. paprikukrydd
1½ tsk. cummin (ath. ekki kúmen)
salt & pipar
chili krydd eftir smekk (ég notaði chili explosion)
2 msk. ólífuolía
1 líter kjötkraftur (nautakraftur og vatn)
3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2 msk. smjör
1-2 msk. tómatpúrra
sýrður rjómi

Aðferð:
Kjötið er skorið í minni teninga ef með þarf. Kartöflur, laukur og gulrætur flysjaðar og skornar í meðalstóra teninga. Kjöt, laukur og paprika er steikt upp úr olíu í stórum potti og öllum kryddunum bætt út í.  Þegar kjötið hefur fengið lit er nautakraftinum og tómatpúrrunni bætt út í pottinn og suðan látin koma upp. Þá er smjörinu og hvítlauknum bætt út í. Látið malla í u.þ.b. 50-60 mínútur, súpan verður enn betri ef hún fær að malla lengur! Þegar um það bil 20 mínútur eru eftir af suðutímanum er kartöflunum og gulrótunum bætt út í súpuna. Borin fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

Focaccia brauð

1 kg brauðhveiti
8 dl volgt vatn
1 msk. salt
1 msk. sykur
1 pk. þurrger
ólífuolía – pipar – saltflögur – hvítlaukur - ólífur

Aðferð:
Þurrefnum blandað saman í skál, volgu vatni bætt út í og hnoðað vel saman.  Deigið er aðeins blautt. Leyfið því að hefast í 1-1½ klst.
Útbúið hvítlauksolíu. Penslið formin sem á að baka brauðin í með ólífuolíu. Deigið er sett í formin (ég hnoða það ekki neitt meir, skipti aðeins deiginu og set í formið). Látið hefast í 30-60 mínútur undir rökum klút.
Gerið margar holur í deigið og penslið það með olíunni/hvítlauksolíunni. Svartur pipar og saltflögur sett yfir, og/eða ólífur). Gott er að setja  örlítið af rifnum osti yfir og baka það síðan.

Hitið ofn upp í 250°C en lækkið í 225°C þegar brauðið er sett inn í. Bakið í u.þ.b. 20-30 mínútur (fer eftir þykkt brauðsins).

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir