Hárið valið sem Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins

Úr sýningu Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu. Mynd:Berglind Þorsteinsdóttir.
Úr sýningu Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu. Mynd:Berglind Þorsteinsdóttir.

Sýning Leikflokks Húnaþings vestra var í gærkvöldi útnefnd sem Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Valið var tilkynnt á hátíðarkvöldverði í tengslum við aðalfund Bandalags íslenskra leikfélaga sem fram fer á Húsavík nú um helgina. Er þetta í tuttugasta og stjötta sinn sem Þjóðleikhúsið býður áhugaleikfélagi af landsbyggðinni að setja sýningu sína upp á fjölum hússins.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:

Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu eftir Gerome Ragni og James Rado í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Um efni Hársins þarf ekki að fjölyrða. Sýningin er hins vegar unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila. Það skal tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikflokks Húnaþings vestra er valin áhugasýning ársins, og það vakti sérstaka athygli dómnefndar hvað starfsemi leikflokksins er öflug í ár. Önnur sýning leikflokksins kom einnig sterklega til greina við valið, Snædrottingin í leikstjórn Gretu Clough, sem er listræn, frumleg og athyglisverð sýning. Tónlistin er falleg og útfærsla leikmyndar og lýsingar er einkar áferðarfögur. Leikhópurinn er að stórum hluta skipaður börnum á grunnskólaaldri sem njóta sín vel.

Að þessu sinni sóttu alls fimmtán leikfélög um að koma til greina við valið með sautján sýningar. Fjórar þeirra voru frá leikfélögum á Norðurlandi vestra, sýningar Leikflokks Húnaþings vestra, Snædrottningin og Hárið, sýning Leikfélags Hofsóss, Gullregn, og leikritið Fylgd sem Leikfélag Sauðárkróks sýnir þessa dagana í Bifröst.

Formaður dómnefndar var Atli Rafn Sigurðarson, en með honum í dómnefnd sátu þrír aðrir leikarar Þjóðleikhússins, þau Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir og Þórey Birgisdóttir. 

Hárið verður sýnt á Stóra sviði Þjóðleikhússins í júní.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir