Heilbrigðisráðherra falið að móta heildstæða stefnu um rekstur og skipulag bráðaþjónustu utan spítala

Alþingi samþykkti í gær að fela heilbrigðisráðherra að móta heildstæða opinbera stefnu um rekstur og skipulag bráðaþjónustu utan spítala. Markmið stefnunnar verði að formfesta samstarf þeirra sem sinna þjónustunni, skilgreina með skýrari hætti ábyrgð og verkaskiptingu innan hennar og efla menntun, endurmenntun og starfsþjálfun þeirra sem starfa við sjúkra- og neyðarflutninga og veita bráðaþjónustu á vettvangi slysa eða í öðrum neyðartilvikum.

Í tilkynningu frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins kemur fram að velferðarnefnd hafi hrundið af stað frumkvæðisathugun á málefnum utanspítalaþjónustu 17. október 2018 og kallað fyrir nefndina helstu hagsmunaaðila í utanspítalaþjónustu, m.a. fulltrúa frá velferðarráðuneytinu, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður og annar tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd Alþingis, mælti fyrir þingsályktunartillögunni fyrir hönd nefndarinnar. „Með þessu er lagður mikilvægur grunnur að öflugri utanspítalaþjónustu, sem er nauðsynlegur hlekkur í sterku heilbrigðiskerfi. Vægi sjúkra- og neyðarflutninga er alltaf að aukast og þessari þingsályktunartillögu er ætlað að styðja enn frekar við þessa mikilvægu grein heilbrigðiskerfisins,“ segir Vilhjálmur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir