Höldum áfram að bæta kjör eldri borgara

Þegar rætt er um kjör aldraðra verður að hafa í huga að hópur eldri borgara er misjafn eins og einstaklingarnir eru margir. Sem betur fer eru kjör stærsta hluta hóps aldraðra góð, þar viljum við hafa flesta. Mikilvægt er að kjör eldri borgara séu ávallt í umræðunni svo hægt sé að bregðast við, bæta og tryggja að allir geti notið eftiráranna án þess að hafa áhyggjur af afkomu. Þeir sem eru að komast á eftirlaun núna eru baráttuglaður hópur, blómakynslóðin sem vildi breytingar og stóð fyrir þeim, kvenréttindi, aukin réttindi til náms, réttindi barna og réttindi á vinnumarkaði. Réttindi sem skiluðu sér inn á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar voru byltingarkennd og skiptu máli.

Kerfið þarf að sveigjanlegt
Í velferðarnefnd, þar sem ég sit, hafði ég framsögu á málum frá Ásmundi Einari, félagsmálráðherra, sem snéru sérstaklega að þessum hópi. Fyrir nokkrum árum var kerfinu breytt á þann veg að fólk gat farið að taka út lífeyrissparnaðinn sinn við 65 ára aldur á móti því að fara í 50% starfshlutfall. Þessar breytingar nýtti sér einhver hluti eldri borgara en á þessum var sá galli að þeir sem höfuð lágan lífeyrisrétt gátu ekki nýtt sér úrræðið. Ásmundur Einar Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, brást við þessu ójafnrétti með frumvarpi sem samþykkt var á síðasta ári. Nú eiga því fleiri kost á að sækja um hálfan lífeyri frá almannatryggingum á móti töku hálfs lífeyris frá lífeyrissjóðum. Hér er um að ræða mikilvægt úrræði til þess að skapa raunverulegt svigrúm til sveigjanlegrar atvinnuþátttöku eldri borgara. Þá hækkaði frítekjumark atvinnutekna í 100.000 krónur á árinu 2018.

Þeir einstaklingar sem standa verst hér á landi í hópi eldri borgara eru erlendir ríkisborgarar sem hafa dvalið hér með ótímabundið dvalarleyfi og átt lögheimili jafnvel í áratugi, þeir eiga lítinn sem engan rétt til eftirlauna frá sínu heimalandi. Sama staða á einnig við um Íslendinga sem eru að koma heim eftir langa fjarveru á erlendri grund. Á árinu 2020 var samþykkt frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá félags- og barnamálaráðherra. Þessi viðbótarstuðningur tekur til þessa hóps sem búsettur er hér á landi og á engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Þessi hópur hefur legið óbættur hjá garði og haft litla sem enga framfærslu og jafnvel þurft að reiða sig á fjárhagsstuðning sveitarfélaga mánaðar til mánaðar. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og þeir einstaklingar sem hafa flutt hingað til landsins með lítil eða engin réttindi frá sínu heimalandi eru margir hverjir fastir í fátæktargildru, með þessari breytingu er verið að tryggja þeim lámarksframfærslu.

Höldum áfram að breyta og bæta
Með bættri lýðheilsu verður þjóðin eldri og heldur lengur færni til að njóta lífsins, því er það eðlileg krafa að þeir sem vilja halda áfram á vinnumarkaði hafi tök á því. Hvað er eðlilegt við það að setja það í lög að á 67 ára afmælisdaginn sé fólk orðið gamalt? Það átti kannski við fyrir 50 árum en gildir ekki í dag. Það á líka við um önnur viðmið, við 67 ára aldur öðlast fólk ýmis réttindi en missir líka önnur. Baráttan um bætt kjör þeirra sem fara á eftirlaun er hvergi nær lokið. Þeir sem hafa góðan lífeyrissparnað eða hafa átt þann kost að treysta afkomu sína með sparnaði eða eignum þurfa ekki að kvíða þessum árum. En það er hópur í samfélaginu sem býr við kröpp kjör, sérstaklega konur en einnig karlar sem hafa verið á láglaunamarkaði og ekki getað tryggt sér eigið húsnæði sem og öryrkjar sem ekki hafa byggt upp lífeyrissparnað. Á haustþingi var samþykkt frumvarp um hlutdeildarlán, nýtt úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga á húsnæðismarkaðnum. Það mætti ætla að það væri hægt að útfæra slíkt úrræði inn á ákveðna aldurshópa og nýta fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun.

Þennan hóp þarf sérstaklega að huga að og hækka þarf eftirlaunin að lágmarkslaunum. Þá þarf að endurskoða skerðingamörkin sem eru við 45% á aðrar tekjur en atvinnutekjur á eftirlaunin. Það er ekki hægt að jafna kjör aldraðra á einfaldan hátt en á meðan að það er hópur sem býr við kröpp kjör innan þessa aldurshóps heldur baráttan áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir