Vel heppnuð námsferð stúdenta í iðnaðar- og orkutæknifræði á Sauðárkrók
Þann 6. maí síðastliðinn fóru stúdentar í iðnaðar- og orkutæknifræði í vel heppnaða dagsferð til Sauðárkróks þar sem þeir heimsóttu eftirtalin fyrirtæki á svæðinu: Mjólkursamlag KS, Steinullarverksmiðjuna, Stoð verkfræðistofu, Fisk Seafood og dagurinn endaði svo á því að skoða borholu hjá Skagafjarðarveitum. Auk þess kíktu stúdentarnir í heimsókn í Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra (FNV) þar sem stúdentar og starfsfólk kynntu iðnaðar- og orkutæknifræði fyrir nemendum skólans.
Styrkja tengsl stúdenta og atvinnulífs
Markmið og tilgangur ferðarinnar var að stúdentarnir fengju innsýn í starfsemi ólíkra tæknifyrirtækja á Norðurlandi en einnig að styrkja tengsl stúdenta og atvinnulífs með heimsóknum í fyrirtæki á svæðinu. Stúdentarnir voru sammála um að ferðin hafi bæði verið fræðandi og skemmtileg þar sem þeir fengu raunverulegt tækifæri á að sjá hvernig þeir gætu nýtt þekkingu sína úr náminu í mögulegum framtíðarstörfum.
Staðnám í heimabyggð
Frá og með haustinu 2023 hafa Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík boðið upp á staðnám á Akureyri í iðnaðar- og orkutæknifræði. Námið er fullgilt tæknifræðinám við HR sem tekur mið af þörfum atvinnulífs á Norðurlandi og gerir stúdentum kleift að stunda námið í heimabyggð.
Hægt er að sækja um í iðnaðar- og orkutæknifræði til og með 5. júní næstkomandi og geta áhugasöm lesið nánar um námið hér.