Íbúum fjölgar í öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra

Hlutfallslega mest fjölgun og fækkun í sveitarfélögum landsins miðað við 1. des. 2018. Mynd af vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is
Hlutfallslega mest fjölgun og fækkun í sveitarfélögum landsins miðað við 1. des. 2018. Mynd af vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is

Þjóðskrá Íslands sendi frá sér tölur um íbúafjölda svo sem venja er um hver mánaðamót. Þar má sjá fjölda íbúa eftir sveitarfélögum og samanburð við íbúatölur 1. desember 2017 og 1 desember 2018. Fjölgunin er mest í Reykjavík þar sem fjölgað hefur um 1.630 íbúa frá 1.des. 2018 til 1. sept. 2019. Ef litið er til landshluta varð hlutfallsleg fjölgun mest á Suðurlandi, 2,7%, en á Vestfjörðum var fækkun um 0,1%. Á Norðurlandi vestra var hlutfallsleg fjölgun 1,5% en fjölgað hefur í öllum sveitarfélögum landshlutans og var íbúatala hans 7.336 manns þann 1. september.

Sé litið til einstakra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra má sjá að mest er fjölgunin í Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem fjölgað hefur um 38 manns og er það fjölgun um 1%. Þar eru íbúar nú 4.028. Mest hefur fjölgað hlutfallslega í Skagabyggð, um 8% eða 7 einstaklinga, og er það næstmest hlutfallsleg fjölgun í sveitarfélögum á landinu öllu. Í Skagabyggð búa nú 95 manns.

Í Húnaþingi vestra er íbúafjöldinn 1.204, hefur fjölgað um 23 og í Blönduósbæ búa 953, hefur fjölgað um 18 manns og er það 1,9% fjölgun í báðum sveitarfélögum.

Í Sveitarfélaginu Skagaströnd búa nú 473 íbúar, hefur fjölgað um 14 manns eða 3,1%. Í Húnavatnshreppi búa 378 manns. Þar hefur fjölgað um fjóra eða 1,1% og í 205 manns búa í Akrahreppi þar sem fjölgað hefur um fimm eða 2,5%.

Upplýsingar um íbúafjölda má nálgast á vef Þjóðskrár. Eru þær uppfærðar mánaðarlega og byggjast á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá þann 1. hvers mánaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir