Íbúum Norðurlands vestra fjölgaði um 97 á liðnu ári

Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands búa einungis 2% íbúa landsins á Norðurlandi vestra. Mynd: skra.is
Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands búa einungis 2% íbúa landsins á Norðurlandi vestra. Mynd: skra.is

Nú í upphafi árs eru íbúar Norðurlands vestra alls 7.327, þremur færri en fyrir mánuði, 1. desember en 97 fleiri en 1. janúar 2019 þegar þeir voru 7230 talsins. Íbúum fækkaði í 20 sveitarfélögum af 72 í síðastliðnum mánuði en auk Norðurlands vestra fækkaði einnig á Vesturlandi.

Aðeins fækkaði í tveimur sveitarfélögum á Norðurlandi vestra þennan nýliðna mánuð, um þrjá á Blönduósi og tvo í Sveitarfélaginu Skagafirði. Í Húnaþingi vestra og Húnavatnshreppi fjölgaði um einn á hvorum stað annars staðar hélst íbúatalan óbreytt.

Ef bornar eru saman tölur frá 1. janúar 2019 og 1. janúar 2020 má sjá að fjölgað hefur í öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra utan tveggja þar sem íbúatalan fór úr 372 niður í 371 í Húnavatnshreppi og á Blönduósi fækkaði einnig um einn en þar búa alls 939 í dag.

Í Svf. Skagafirði hefur fjölgað um 43 á þessu tímabili og eru íbúar nú 4035 talsins. Í Húnaþingi vestra fjölgaði um 29 og teljast íbúar nú 1211. Alls  búa 473 eða 22 fleiri en fyrir ári á Skagaströnd, og þrír fleiri eru búsettir í Akrahreppi nú miðað við 1. janúar 2019. Íbúatalan stendur í stað í Skagabyggð en þar búa 90 manns.

Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands þá búa 64% landsmanna á höfuðborgarsvæðinu og 8,5% á Suðurlandi. Einungis 2% íbúa landsins búa á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir