Júlíus á Tjörn í stjórn Landnámshænunnar
Á aðalfundi Eigenda- og ræktendafélags Landnámshænsna sem haldinn var í húsakynnum Bændahallarinnar 6. nóvember s.l. var Júlíus Már Baldursson hænsnaræktandi að Tjörn á Vatnsnesi kjörinn ritari stjórnar til næstu þriggja ára.
Á heimasíðu Landnámshænunnar að Tjörn segir að mæting hafi verið dræm á aðalfundinn þar sem einungis 22 af rúmlega 3oo félagsmönnum sá sér fært að mæta.
-Það vantar tilfinnanlega að fólk mæti betur á fundinn, til þess að taka meiri þátt í starfi félagsins og móta líka stefnu þess er viðkemur og snýr að íslensku Landnámshænunni okkar. Gott fólk er alltaf velkomið í félagsstarfið og það vantar alltaf fólk sem hefur áhuga á að vinna að málefnum Landnámshænunnar, segir Júlíus.
Þá segir á Hæna.is að fjörugar umræður hafi verið á fundinum um skemmdarstarfsemi sem óprúttnir einstaklingar vinna nú með því að selja egg og unga af öðrum stofnum sem landnámshænur, en svo virðist vera sem nokkrir aðilar stundi þetta óhikað. Þá var var einnig rætt um áhættu sem því fylgir að rækta fram ýkta útgáfu af hænunni eins og nú sést í auknum mæli - mjög loðnar á haus og fiðraðar fram á tær og aftan á hné- en þessi eiginleiki er ekki æskilegur og getur á örskömmum tíma stofnað fjölbreytileika hænunnar í hættu ef svo heldur sem horfir. Fundarmönnum var mjög heitt í hamsi vegna þessa og fólu stjórninni að taka fast á þessum vandamálum.
Í stjórn voru kosnir: Jóhanna Harðardóttir formaður, Júlíus Baldursson og Valgerður Auðunsdóttir. í varastjórn voru kjörnir Guðný í Hlíð og Ingi V. Gunnlaugsson Ólafsfirði