Karólína í Hvammshlíð með nýtt dagatal - Að þessu sinni með dráttarvél

Í fyrrahaust gerðist það ótrúlega að ljósmyndadagatalið Karólínu í Hvammshlíð gerði henni kleift að kaupa dráttarvél. Svo leið veturinn og sumarið og margir hvöttu Karólínu að búa til aðra útgáfu. Hún ákvað að láta slag standa, ekki síst til að sýna hvernig Zetorinn 7245, árgangur 1990, stendur sig í hversdagsverkum uppi í fjöllunum.

Dagatalið er þegar komið úr prentsmiðjunni og veitir enn dýpri innsýn í líf Hvammshlíðarbúanna 57 sem eru sem fyrr litrík kindahjörð, fjögur hross, hundarnir Baugur og Kappi og auðvitað Karólína sjálf. Stærð og gerð er eins og í fyrra, 42 x 30 sm – eða jafnvel 42 x 60 sm ef maður hengir það upp á efra blaðinu til að sjá allar myndir og upplýsingar hvers mánaðar í einu.

Auk nýrra mynda prýðir að þessu sinni ein gömul mynd hvert mánaðarblað, helmingur af þeim er úr Skagafirði og Húnavatnssýslum. Elsta myndin, sem er reyndar málverk, er frá 1874 og sú yngsta frá um 1950. Önnur nýjung er svo kallaður viðaukinn í svart-hvítu sem inniheldur, auk upplýsingatexta frá fyrri útgáfu, yfirlit yfir gamlar íslenskar mælieiningar, smá bakgrunn um notkun sauðfjár sem mjólkurdýr og nokkur ómissandi orð í kringum sauðfé. Þar kemur líka fram hver munurinn er á sauðum og hrútum sem getur oft virst óljós ókunnugum. Þar sem Karólína á hvorki meira né minna en 19 sauði – og líklega þá með stærstu sauðabændum landsins –, eru þetta mikilvægar upplýsingar.

Dagatalið fæst í Skagfirðingabúðinni á Króknum, hjá Líflandi á Blönduósi og hjá Karólínu sjálfri (sími 865 8107, netfang 14carom@web.de). Það kostar sem fyrr 3000 kr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir