Las ástarsögur eftir Eðvarð Ingólfsson og Andrés Indriðson um fermingu

Bókakonan Kristín Einarsdóttir á þjóðlegu nótunum. Aðsend mynd.
Bókakonan Kristín Einarsdóttir á þjóðlegu nótunum. Aðsend mynd.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir, sem þá var grunnskólakennari við Grunnskólann austan Vatna á Sólgörðum í Fljótum, svæðisleiðsögumaður og fyrrum blaðamaður hjá Feyki, leyfði okkur að skyggnast aðeins í bókaskápinn sinn í fermingarblaði Feykis 2018. Eins og gefur að skilja er Dalalíf Guðrúnar frá Lundi í miklu uppáhaldi hjá henni en hún setti upp á Sauðárkróki, ásamt Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur, sýninguna Kona á skjön sem fjallaði um ævi og störf Guðrúnar og hefur sýningin verið sett upp á nokkrum stöðum á landinu síðan.

Hvers konar bækur lestu helst?

Ég hef nokkuð fjölbreyttan bókmenntasmekk. Mér finnst ákaflega gaman að grúska í fræðibókum, sérstaklega byggðasögu, þjóðlegum fróðleik og ferðahandbókum. Einnig les ég mikið af skáldsögum, þá einkum eftir íslenska höfunda og norræna krimma. Ljóðabækur glugga ég stundum í, en þá sérstaklega ef ég er að leita að einhverjum tækifærisljóðum.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?

Ef ég fer alveg aftur til fortíðar minnist ég þess fyrst að bækurnar um Emmu og Tuma hafi verið í miklu uppáhaldi. Síðan tóku við bókmenntir eins og Öddu bækurnar, Nancy bækurnar, Ævintýrabækurnar, bækur eftir Guðrún Helgadóttur og Astrid Lindgren, Ole-Lund Kirkegard og fleiri sígilda höfunda. Mesta nostalgían fylgir bókinni um Pál Vilhjálmsson. Ég og yngsta systir mín bjuggum okkur til ímyndaðan vin að hans fyrirmynd, sem að okkar sögn bjó í veggnum á milli herbergjanna okkar. Ef ég man rétt var Ævintýraeyjan fyrsta stóra bókin” sem ég las. Löngu áður en ég hafði aldur til reyndi ég að lesa einhverja innbundna ástarsögu sem ég fann á náttborðinu hjá mömmu, en hún var óskaplega leiðinleg og enn í dag þykja mér ástarsögur frekar leiðinlegar bókmenntir. Af því þetta er fermingarblað verð ég þó að játa að um fermingu lá ég í bókum eftir Eðvarð Ingólfsson, Andrés Indriðason og fleiri sem voru að skrifa ástarsögur fyrir unglinga.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?

Þetta er nú næstum eins ósanngjarnt og að spyrja hvert sé uppáhaldsbarnið þitt! Fyrst skal þó telja Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi, sem ég hef lesið oftar en nokkrar aðrar bækur. Reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur er ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið. Mig langar einnig að nefna bækurnar um Auði Djúpúðgu eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Svo verð ég að nefna eina Íslendingasögu og þar kemur Egils saga sterk inn, en ég hafði óskaplega skemmtilegan kennara í framhaldsskóla, Hörpu Hreinsdóttur, sem gerði söguna enn skemmtilegri.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna?

Hér er einnig erfitt að gera upp á milli. Ég nefni þó að sjálfsögðu þá höfunda sem nefndir voru hér á undan og gæti til dæmis bætt við Arnaldi Indriðasyni, Kristínu Steinsdóttur, Steini Steinarr, Camillu Lackberg og ýmsum fleirum.

Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?

Á mínu heimili dugar ekki náttborðið til! Þar liggja þessa dagana Sakramentið eftir Ólaf Jóhann, sem er frumraun mín í lestri bóka eftir hann, Löggan eftir Jo Nesbö, Kuldi eftir Yrsu og Byggðasaga Skagafjarðar, Skammt undan er stórt borð sem ég nota fyrir bækurnar sem ég er að grúska í vegna heimildarvinnu og inniheldur það stóran bunka bóka sem ég sem ég hef sankað að mér um Fljótin, sem og annan skagfirskan fróðleik, Skólaljóð (þessi gamla bláa) og Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?

Ég fer mjög reglulega á bókasafnið á Króknum og finnst gaman að koma þangað, sérstaklega eftir endurbæturnar þar. Vegna breyttrar búsetu hef ég svo bætt við bókasöfnunum á Hofsósi og Siglufirði, sem eru bæði ákaflega heimilisleg og skemmtileg. Ég vil líka nefna að mér finnst gaman að koma á bókasöfnin á Ísafirði og Akureyri og notaði gjarnan tækifærið til þess þegar ég fór í náms- og vinnuferðir á þessa staði.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?

Fornbókasalan hjá Erni vini mínum og nágranna í Ökrum er klárlega í mestu uppáhaldi. Næst þar á eftir kemur Eymundsson á Akureyri. Ég kíki gjarnan í bókabúðir erlendis, en hef ekki lagt nöfn þeirra sérstaklega á minnið.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?

Ég á líklega um 700 bækur sem um þessar mundir skiptast á tvö heimili, annað á Króknum og hitt í Fljótum. Eitthvað er svo í kössum í geymslunni.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?

Ég eignast líklega um þrjátíu bækur á ári (vona að eiginmaðurinn lesi ekki blaðið!), enda eru þær, ásamt súkkulaði og gömlum kaffibollum, eitthvað sem ég freistast til að kaupa þó ég eigi nóg af því.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?

Nei, ekki er það nú, en synir mínir gefa mér gjarnan Byggðasöguna eða aðra sagnfræði í jólagjöf.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?

Biblía í fallegu skinnbandi sem ég erfði eftir móðurömmu mína og er upphaflega komin frá Kristínu langömmu minni á Neskaupsstað. Einnig þykir mér óskaplega vænt um allar bækurnar sem ég erfði eftir pabba, Gísla afa og Valda afabróður minn.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?

Ég hef farið margar ferðir með ferðamenn á slóðir Guðrúnar frá Lundi. Ég stoppa oft á stöðum þar sem tengjast skáldum eða bókmenntum á ferðalögum mínum. Ég hef ekki gert mér ferð á slóðir einstakra höfunda eða bóka erlendis en það er á þriggja ára áætlun.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?

Það fer algjörlega eftir viðtakandanum og tilefninu. Fólkinu mínu í Noregi gef ég gjarnan bækur eftir íslenska höfunda. Eins finnst mér gaman að gefa bækur með tilvitnunum og spakmælum.

Manstu eftir einhverjum bókum sem þú fékkst í fermingargjöf?

Í fermingargjöf fékk ég Lilju frá sóknarprestinum okkar, afmælisdagabók og hinar hefðbundnu gestabækur með myndaalbúmi og skeytamöppu, sem voru “trend” þess tíma.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir