Leiðindaveður í Húnaþingi

Leiðindaveður hefur verið á öllu landinu síðasta sólarhring enda myndarleg lægð að læðast yfir landið. Í Húnaþingi vestra var mjög slæmt veður þar sem Húnar aðstoðuðu vegfaranda sem var í vandræðum og á Hvammstanga sást vart milli húsa.

Á heimsíðu björgunarsveitarinnar Húna segir að upp úr klukkan níu í gærkvöldi, fljótlega eftir að veðrið skall á, óskaði Neyðarlínan eftir aðstoð sveitarinnar vegna fólks sem var í vandræðum er það lenti utan vegar á Hrútafjarðarhálsi. Farið var á Húna 2 á fólkið flutt á Hvammstanga en skilja þurfti bíl þess eftir þar sem hann var bilaður. Á heimleiðinni kom önnur aðstoðarbeiðni en bíll hafði lent utan vegar við Laugarbakka og var hann spilaður upp.

Rétt fyrir hádegi í dag var þokkalegt veður á Hvammstanga og brá Helga Hinriksdóttir sér út með myndavélina og smellti af og sendi á Feyki.

Fleiri fréttir