Lokafundur Ratsjárinnar á Norðurlandi vestra

Frá lokafundinum. Mynd: ratsjain.is
Frá lokafundinum. Mynd: ratsjain.is

Ratsjáin á Norðurlandi vestra hélt sinn fimmta og síðasta fund hjá Seal Travel á Hvammstanga sl. mánudag. Þar fékk hópurinn kynningu á fyrirtækinu og skoðaði um leið Selasetur Íslands. Að því loknu tók við greiningarvinna sem unnin var á Hótel Laugarbakka og að henni lokinni borðaði hópurinn saman og styrkti enn frekar stoðirnar sem er einmitt mikilvægur hluti verkefnisins að því er segir á vefsíðu Ratsjárinnar.

Ratsjáin er nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og var það sett af stað á Norðurlandi vestra í upphafi ársins. Ratsjáin hefur verið haldin víða um landið en þetta var í fjórða skipti sem það var gert. Þátttakendur í verkefninu voru frá fimm ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðinu. Þau voru Ferðaþjónustan Lýtingsstöðum í Skagafirði, Selasigling á Hvammstanga, Skíðasvæðið Tindastóli í Skagafirði, Spíra ehf á Sauðárkróki og Seal Travel á Hvammstanga.

Fyrirkomulag verkefnisins er þannig að hvert fyrirtæki var heimsótt einu sinni af öllum hinum fyrirtækjunum, rekstur þess tekinn fyrir og ræddur. Á vef Ratsjárinnar segir að þátttökufyrirtækin í Ratsjánni á Norðurlandi vestra hafi endurspeglað vel þá fjölbreytni sem finna má á svæðinu en þar voru allt í senn afþreyingafyrirtæki, hótel og ferðaskrifstofur.

Hægt er að lesa nánar um verkefnið hér, á heimasíðu Ratsjárinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir