Lokaráðstefna Erasmus+ verkefnisins INTERFACE í Ljósheimum á morgun

Þátttakendur funda. Mynd af vef Byggðastofnunar
Þátttakendur funda. Mynd af vef Byggðastofnunar

Lokafundur aðila Erasmus+ verkefnisins INTERFACE er haldinn í höfuðstöðvum Byggðastofnunar á Sauðárkróki í dag, miðvikudaginn 19. júní. Skammstöfunin INTERFACE vísar til verkefnisheitisins á ensku, „Innovation and Entrepreneurship for Fragile Communities in Europe“, sem þýða mætti sem „Nýsköpun og frumkvæði í brothættum byggðarlögum í Evrópu“. Aðilar að verkefninu fyrir Íslands hönd eru Byggðastofnun og Háskólinn á Bifröst en aðrir þátttakendur koma frá Írlandi, Búlgaríu, Ítalíu og Grikklandi.

Á vef Byggðastofnunar segir m.a. að INTERFACE verkefnið miði að því að valdefla íbúa brothættra byggðarlaga með það að markmiði að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf í byggðarlögunum og sé þátttaka íbúa í hvers kyns byggðaþróunarverkefnum lykilatriði. Hafi það sýnt sig að slíkt starf efli samfélagsvitund þeirra sem taka þátt og einnig felast mikil verðmæti í þekkingu íbúanna á sérstöðu, innviðum og tækifærum sinnar heimabyggðar.

Á morgun, fimmtudaginn 20. júní, verður svo lokaráðstefna verkefnisins haldin í Ljósheimum.Hefst hún með léttum málsverði klukkan 12:00 og stendur til rúmlega 16:30. „Við hvetjum alla sem hafa áhuga á framþróun í sínu byggðarlagi og sér í lagi endurmenntun íbúa, að mæta á fundinn, fræðast um málefni annarra landa og taka þátt í umræðum,“ segir á vef Byggðastofnunar.

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir