Lóuþrælar fara af stað
Karlakórinn Lóuþrælar eru að hefja sitt vetrarstarf og verður fyrsta æfing haldin miðvikudagskvöldið 12. október nk. Æfingarnar fara fram eins og venjulega í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka kl 20:30 og er æft einu sinni í viku. Samkvæmt heimasíðu Lóuþræla verða í vetur æfð dægurlög frá ýmsum tímum, íslensk sem erlend.
Þar má nefna lög með flytjendunum: Sálin hans Jóns míns, Elvis Presley, Simon and Garfunkel og fleirum. Hljómsveit kórsins mun spila með söngnum. Það er alltaf pláss fyrir fleiri söngmenn í kórnum og þeir sem vilja prufa er bent á að hafa samband við Guðmund St. Sigurðsson söngstjóra í síma 8952537 og mæta í létta söngprufu ef þörf þykir.