Markaveislur í Lengjudeild karla

Konni fær boltann á móti liði KF á dögunum. MYND: ÓAB
Konni fær boltann á móti liði KF á dögunum. MYND: ÓAB

Karlaliðin tvö af Norðurlandi vestra, Tindastóll og Kormákur Hvöt, sprettu úr spori í gær í Lengjubikarnum. Stólarnir náðu í sín fyrstu stig með fínum sigri gegn liði Kára frá Akranesi, 4-1, en Húnvetningar fengu skell gegn Úlfunum þar sem liðið laut í gras, 7-4, eftir að hafa verið yfir, 1-4, í hálfleik.

Lið Kormáks Hvatar var að spila annan leik sinn í C-deild Lengjubikarsins, höfðu í byrjun mánaðar gert 3-3 jafntefli við lið KB sem jafnaði í blálokin. Í gær skutust Húnvetningar úr startblokkinni og komust í 0-4 á Framvellinum. Ingvi Rafn fyrirliði, gerði þrennu en Viktor Ingi skaut inn einu marki. Úlfarnir minnkuðu muninn á annarri mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleik. Á 17 míinútna kafla í síðari hálfleik gerðu heimamenn hins vegar sex mörk í ótrúlegri endurkomu.

Á Króknum tóku Tindastólsmenn á móti liði Kára. Andri Júlíusson kom gestunum yfir á 17. mínútu og það harðnaði á dalnum hjá heimamönnum þegar Addi Ólafs fékk að skoða rauða spjaldið hjá dómaranum fimm mínútum síðar. Fylkir Jóhannsson í liði Kára fékk síðan að skoða gula spjaldið tvívegis og var sömuleiðis sendur í sóttkví á 44. mínútu. Konni nýttu tímann fram að hléi vel og gerði tvö mörk, það seinna úr víti. Staðan 2-1 í hálfleik og jafn fáir í báðum liðum.

Í síðari hálfleik bætti Jónas Aron við þriðja marki Tindastóls á 52. mínútu og Hafþór Bjarki Guðmunds og Valgerðar Erlingssonur, kórónaði sigur Stóla á 60. mínútu. Tindastólsliðið hefur staðið sig ágætlega í Lengjubikarnum þó fyrstu stigin hafi ekki dottið í hús fyrr en nú. Einn leikur er eftir og hann er gegn liði ÍH næstkomandi laugardag og verður leikið í Skessunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir