Miðfjarðará enn í þriðja sætinu

Veitt í Miðfjarðará. Mynd: angling.is
Veitt í Miðfjarðará. Mynd: angling.is

Afli úr húnvetnsku laxveiðiánum er enn tregur þó örlítill kippur hafi orðið síðustu dagana samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landssambands veiðifélaga yfir aflahæstu laxveiðiár landsins. Ef litið er á veiðitölur síðustu ára má sjá að veiðin er almennt um helmingi minni en á síðasta ári og sé litið enn lengra aftur er munurinn enn meiri. Nú hefur veiðst 1351 lax í ánum sjö sem á listanum eru, á sama tíma í fyrra voru þeir 2.664 en árið 2017 var veiðin 3.565 laxar.

Miðfjarðará er í þriðja sæti listans, líkt og í síðustu viku, og hefur hún skilað 493 löxum en á sama tíma í fyrra voru þeir 1.058 og 1.458 árið 2017. Blanda er komin niður í sjöunda sæti, fellur niður um tvö. Þar hafa veiðst 325 laxar samanborið við 668 á síðasta ári og 913 árið þar á undan.

Laxá á Ásum er næst á listanum, í 13. sæti með 217 laxa en voru 335 á sama tíma í fyrra og 438 árið 2017. Víðidalsá er með 133 fiska, voru 232 á sama tíma síðasta sumar og 372 sumarið á undan. Í Vatnsdals á hefur 121 lax veiðst en voru 213 í fyrra og 267 árið áður. Í Hrútafjarðará og Síká hafa veiðst 52 laxar samanborið við 120 í fyrra og 80 árið 2017 og loks er Svartá með 10 en síðasta sumar höfðu veiðst þar 38 laxar og 37 árið á undan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir