Miðstöð um ofbeldi gegn börnum stofnuð

Ásmundur Einar Daðason og Bergsteinn Jónsson. Mynd: Stjórnarráðið.
Ásmundur Einar Daðason og Bergsteinn Jónsson. Mynd: Stjórnarráðið.

UNICEF á Íslandi afhenti í gær Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, 11.430 undirskriftir úr nýlegu ofbeldisvarnarátaki sem bar yfirskriftina ,,Stöðvum feluleikinn” og var ætlað að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að átakinu hafi verið hrundið af stað í kjölfar birtingar UNICEF síðastliðið vor á tölum sem gáfu til kynna að af þeim rúmlega 80 þúsund börnum sem búa á Íslandi verði rúmlega þrettán þúsund fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir átján ára aldur. Í ljósi alvarleika málsins kallaði UNICEF á Íslandi eftir vitundarvakningu og aðgerðum.

Undirskriftirnar afhenti Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í nafni Guðrúnar Ögmundsdóttur, fyrrum alþingismanns, sem lést þann 31. desember síðastliðinn en hún var stjórnarkona og síðar stjórnarformaður UNICEF á Íslandi um árabil og mikil baráttukona fyrir réttindum barna og útrýmingu ofbeldis gegn börnum.

Við afhendingu undirskriftanna tilkynnti Ásmundur Einar formlega um stofnun miðstöðvar sem mun hafa það að markmiði að halda utan um upplýsingar er varða ofbeldi gegn börnum og vera stjórnvöldum til ráðgjafar og leggja fram tillögur að mótun stefnu og aðgerða í þessum efnum og fylgja þeim eftir.

 „Þegar þessar sláandi tölur voru kynntar í vor var strax farið af stað í að móta aðgerðir enda með öllu óásættanleg staða. Við höfum lagt ríka áherslu á að bregðast fljótt og vel við og eru verkefni þessu tengt komin vel á veg. Ég bind vonir við að þær aðgerðir sem við kynntum í dag hjálpi okkur að ná enn betur utan um þessi mál og að þær hafi verndandi áhrif á börn þessa lands,“ segir Ásmundur Einar.

Sjá nánar á stjornarradid.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir