Mikilvægur sigur hjá K/H

Það var geggjuð stemning í stúkunni og misstu sig allir þegar dómarinn flautaði leikinn af. Mynd: Svanur Ingi Björnsson
Það var geggjuð stemning í stúkunni og misstu sig allir þegar dómarinn flautaði leikinn af. Mynd: Svanur Ingi Björnsson

Á laugardaginn fengu Kormákur/Hvöt (K/H)  lið Snæfells í heimsókn á Hvammstangavelli. Fyrir leikinn var K/H í þriðja sæti með 23. stig fimm stigum á eftir Snæfelli og Hvíta riddaranum. Heimamenn skoruðu eina mark leiksins og var það úr vítaspyrnu.    

Það var nokkuð ljóst í upphafi leiks að leikurinn var mikilvægur báðum liðum, því að spennustigið var mjög hátt. Stöðubaráttan var mjög mikil en fljótlega tók Kormákur/Hvöt öll völd á vellinum og spilaði einkar vel þar sem boltinn gekk vel á milli manna og sköpuðu sér mörg góð færi en inn vildi boltinn ekki. Á 44. mínútu fékk K/H vítaspyrnu eftir að einn leikmaður Snæfells þótti greinilega aðeins of vænt um Bjarka þjálfara en með þeim afleiðingum að hann reif hann niður og réttilega dæmd vítaspyrna.  Á punktinn steig markavélin Diego og skoraði hann af miklu öryggi þar sem hann sendi markmanninn í rangt horn. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir K/H.

Snæfell mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og voru meira með boltann án þess að skapa sér færi. Vörn heimamanna hélt og vann K/H verðskuldaðan og alveg einkar sætan sigur á Snæfell sem fyrir þennan leik hafði ekki tapað leik á tímabilinu. Þetta var sannkallaður liðssigur og virkilega mikilvægur í baráttu K/H til að komast í úrslitakeppnina.

Næsti leikur hjá K/H er á móti Hvíta riddaranum og verður leikurinn spilaður á Blönduósvelli 10. ágúst klukkan 12:00.

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir