Norðvesturdeildin í minnibolta krakka í undirbúningi
Rúnar Birgir Gíslason körfuknattleiksáhugamaður og fleiri áhugasamir aðilar, vinna nú að því að stofnuð verði sérstök keppnisdeild í minnibolta krakka í körfuknattleik, en svo kallast körfubolti fyrir krakka 11 ára og yngri.
Markmiðið með deildinni er að sögn Rúnars, að búa til skemmtilegan mótavettvang fyrir krakka á svæðinu, þar sem þau þurfi hvorki að ferðast um langar leiðir til að keppa eða greiða mikinn ferðakostnað.
- Hér eru góðar aðstæður fyrir körfuboltaiðkun á svæðinu, íþróttahús í hverju plássi, eða í það minnsta lágmarksaðstaða, en það þarf í raun ekki meira en eina körfu og einn bolta til að geta haldið úti körfuboltaæfingum. Við höfum sent bréf á fjölda skóla og íþróttafélög allt frá Siglufirði og yfir í Vestur-Húnavatnssýslur og vonumst til þess að undirtektir verði góðar, segir Rúnar. Hann segir að aðeins þurfi 5 leikmenn til að búa til lið og því henti körfuboltinn smærri samfélögum ákaflega vel.
Hugmyndin er að halda 2 mót í vetur á meðan þetta er að komast af stað og er gert ráð fyrir því að mótin verði haldin til skiptis á þátttökustöðunum.
- Við erum að kalla eftir viðbrögðum frá þessum aðilum og það þarf í raun ekki nema 3-4 aðila í upphafi til að það verði mótahæft, segir Rúnar að lokum.
Áhugasamir geta snúið sér til Rúnars, í síma 618 4910 eða á netfanginu runar@mikkivefur.is.