Öldungaráð Húnaþings vestra fundar í fyrsta sinn

Frá fyrsta fundi Öldungaráðs Húnaþings vestra. Mynd: hunathing.is.
Frá fyrsta fundi Öldungaráðs Húnaþings vestra. Mynd: hunathing.is.

Fyrsti fundur Öldungaráðs Húnaþings vestra var haldinn sl. þriðjudag í fundarsal Ráðhússins þar sem Guðmundur Haukur Sigurðsson var kosinn formaður og Jóna Halldóra Tryggvadóttir varaformaður. Öldungaráð starfar á fjölskyldusviði og heyrir undir sveitarstjórn Húnaþings vestra. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs, eða fulltrúi hans starfar með ráðinu.

Á heimasíðu Húnaþings kemur fram að öldungaráði sé ætlað að vera félagsmálaráði og sveitarstjórn Húnaþings vestra til ráðgjafar um málefni og hagsmuni þeirra íbúa í Húnaþingi vestra sem eru 60 ára og eldri og starfar í umboði sveitarstjórnarinnar.

Í fundargerð segir að Guðmundur Haukur hafi spurt um samning við HVE um dagdvöl við eldri borgara. Skýrði hann sjálfur út þann samning fyrir ráðinu og lagði til eftirfarandi tillögu: „Öldungaráð Húnaþings vestra beinir þeim eindregnum tilmælum  til sveitastjórnar Húnaþings vestra að standa vörð um og byggja frekar upp dagdvöl fyrir aldraða í sveitarfélaginu m.a. með því að fá leyfi fyrir dagdvalarplássum fyrir heilabilaða. Ráðið telur að reynslan af samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga um framkvæmd dagdvalarinnar sé mjög góð og hvetur sveitastjórn að leggja sitt af mörkum til að endurskoða með framhald í huga það samkomulag milli þessara aðila sem sagt var upp síðasta vor.“ Var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Einnig var rætt um framtíðarsýn íbúa 60 ára og eldri um búsetu og kom fram sú hugmynd að gera skoðanakönnun á þeim málum og hvetur ráðið sveitarstjórn til að hrinda slíkri könnun í framkvæmd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir