Prjónakvöld á Laugarbakka og Blönduósi
Löng hefð er fyrir því að fólk kemur saman til að vinna í höndunum og spjalla um lífið og veginn. Í kvöld og á morgun verða svokölluð prjónakvöld á Laugabakka og á Blönduósi og eru allir boðnir velkomnir með handavinnu sína.
Prjónakvöldið á Laugarbakka byrjar uppúr kl. 20 í Löngufit handverkshúsi og eru prjónandi konur og karlar boðnir velkomnir. Það verður heitt á könnunni og nóg um að spjalla og skrafa.
Á fimmtudaginn kl. 20 verður prjónakvöld á Textílsetri Íslands í Kvennaskólanum á Blönduósi. Þar verður kynning á framgangi verkefnisins „Vatnsdæla á refli“ og gestum boðið að setja spor sitt í refilinn. Kaffi verður á könnunni.