Rafræn skráning manntalsins 1840 unnin á Hvammstanga
Fyrir skömmu fól Þjóðskjalasafn Íslands fyrirtækinu Forsvari á Hvammstanga að yfirfæra manntalið frá 1840 yfir á stafrænt form. Verður manntalið í kjölfarið gert aðgengilegt á netinu hjá Þjóðskjalasafni. Manntalið er eitt af tíu sem Þjóðskjalasafn hyggst birta á netinu á næstu misserum í tengslum við sérstakt átaksverkefni í atvinnumálum á vegum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskkvóta.
Elín R. Líndal, framkvæmdastjóri Forsvars, segir að yfirfærslu manntalsins 1840 ljúki í mars á næsta ári enda sé verkið umfangsmikið. Þrír starfsmenn Forsvars vinna við verkið í hlutastarfi á Hvammstanga og segir Elín verkefnið mikla búbót fyrir fyrirtækið, sem hafi áralanga reynslu af sambærilegri vinnu.
Önnur á leiðinni
Á vef Þjóðskjalasafns eru nú þegar manntölin 1703, 1835 og 1870, en hið síðastnefnda var birt á vefnum í júní síðastliðnum. Unnt er að leita í manntölunum með ýmsum hætti. Um þessar mundir er unnið að stafrænni gerð manntalsins 1855 hjá héraðsskjalasöfnunum á Egilsstöðum og Sauðárkróki. Er þess vænst að verkinu ljúki síðar á þessu ári. Það sama á við um manntalið 1860 en innslætti þess miðar vel í Héraðsskjalasafninu í Vestmannaeyjum. Almennt hefur skráningarvinna gengið samkvæmt áætlun, en gert er ráð fyrir skráningu tíu manntala á tveggja ára tímabili, 2008 og 2009.
Mikilvægar og loks aðgengilegar heimildir
Vegna niðurskurðar á þorskkvóta ákvað ríkisstjórn Íslands haustið 2007 aðgerðir til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum sem áttu í erfiðleikum vegna samdráttar aflaheimilda. Ein aðgerðin fólst í því að veita Þjóðskjalasafni Íslands fé til tveggja skráningarverkefna úti á landi. Annað þeirra er að búa til stafræn afrit af manntölum í vörslu safnsins og gera þau aðgengileg á netinu. Flest manntölin eru einungis aðgengileg í Þjóðskjalasafni. Rafræn gerð manntala á vefnum er byltingarkennd breyting á aðgengi að þessum mikilvægu heimildum og opnar nýja möguleika í rannsóknum á mannfjöldasögu, byggðasögu og persónusögu.