Samfélagið okkar :: Áskorendapenninn Sigríður Ólafsdóttir Víðidalstungu

Í upphafi langar mig til að þakka kærlega fyrir áskorunina, ég er nefnilega þeim hæfileika gædd að vera aldrei andlausari í skrifum en þegar skorað er á mig að skrifa eitthvað, hæfileiki sem væri nú líklega sérstakt rannsóknarefni en það er annað mál.

Í þessum pistli langar mig til að fjalla um náunga- og nágrannakærleik. Það er nefnilega fyrirbæri sem mér finnst stundum vera eilítið vanmetið en skiptir samt svo ótrúlega miklu máli.

Hér í sveitarfélaginu eigum við marga góða nágranna, reyndar eru allir okkar sveitungar góðir nágrannar. Auðvitað getum við stundum þrætt um hina ýmsustu hluti, bara eins og gerist innan allra sveitarfélaga hef ég trú á, en það er einmitt það sem gerir samfélagið okkar svo gott að við getum leyft okkur að greina á um allskonar hluti. Við þrætum og rífumst og erum ósammála um margt og mikið en þegar svo eitthvað bjátar á þá stöndum við öll saman.

Það er að mínu mati það sem býr til samfélag, það er að fólk taki höndum saman og styðji hvert við annað. Samfélag snýst nefnilega ekki um að vera alltaf sammála um allt, samfélag snýst um að taka utanum hvert annað sama þó að fólk hafi misjafnar skoðanir. Við erum jú öll einstaklingar og það væri óeðlilegt ef við værum alltaf sammála um allt, samfélag hins vegar samþykkir misjafnar skoðanir á málum og heldur samt saman.

Ég hef svosum ekki búið mjög víða. Í þessi skipti sem ég flutti að heiman var það ýmist vegna skóla eða vinnu, í hvert skipti stefndi hugurinn heim aftur og það er af því að það er bara svo ákaflega gott að búa í Húnaþingi vestra. Hér hjálpumst við að þegar þarf, sinnum hvert öðru þegar þarf, við tökum fagnandi á móti fólki sem vill flytja í sveitarfélagið. Ég hvet ykkur hér með til að flytja í Húnaþing vestra!

Ég skora á Sofiu B. Krantz, nágranna minn, að koma með pistil næst.

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir