Samningar takast milli kröfuhafa og Spkef sparisjóðs

Húni segir frá því að síðastliðinn föstudag náðist samkomulag milli slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs, um uppgjör vegna yfirtöku Spkef sparsjóðs á innstæðum og rekstri Sparisjóðsins í Keflavík. Samkvæmt samkomulaginu greiðir Spkef sparisjóður samtals 300 milljónir króna til Sparisjóðsins í Keflavík vegna yfirtöku á innstæðum, eignum og rekstri sparisjóðsins. Sparisjóðurinn Hvammstanga tilheyrir hinum nýja Spkef sparisjóði.

Í tilkynningu frá Spkef sparisjóði segir að með samkomulaginu skapist forsendur til þess að ljúka fjármögnun sparisjóðsins, en nýr efnahagsreikningur sparisjóðsins mun tryggja fjárhagslega stöðu hans í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Sparisjóðurinn muni leggja áherslu á að starfa í anda sparisjóða hugsjónarinnar, bjóða viðskiptavinum sínum persónulega þjónustu af umhyggju og nærgætni með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Sparisjóðurinn muni hér eftir, sem hingað til kappkosta að styðja vel við nærsamfélag sitt á hverjum stað fyrir sig.

Fleiri fréttir