Sláturhúsið á Hvammstanga kært til umhverfisráðuneytisins
Eftir því sem kemur fram á Rúv.is hafa 12 íbúar Hvammstanga lagt inn kæru til umhverfisráðuneytisins vegna sláturhússins á staðnum en það er skammt frá nyrsta íbúahverfi bæjarins. Krafist er þess að umgengni á lóð sláturhússins verði bætt sem og að gildistími starfsleyfisins verði ekki lengri en 3 ár en hann er 12 ár núna.
„Við viljum bara sjá betri umgengni og snyrtilegri og minna af allskonar aukadóti sem okkur finnst engin prýði af og ekki tilheyra matvælaiðnaði,“ sagði Ragnheiður í viðtali við fréttastofu RÚV.
Á Húnaþingsblogginu segir frá heimsókn eftirlitsmanns verslunarkeðjunnar Whole Foods Market í USA á sláturhúsið í vikunni og haft eftir honum að þetta sé með þrifalegri sláturhúsum sem hann hefur komið í en hann segir: "Maggi og hans fólk eru að gera góða hluti í sláturhúsinu. Mörg sláturhús í bandaríkjunum hafa vandamál með hreinlæti innandyra og utandyra, en það er ekki á Hvammstanga". Maggi þessi er Magnús Jónsson framkvæmdarstjóra SKVH og segir hann að sláturhúsið hafi fengið framúrskarandi einkunn eða Excelent. Á blogginu eru myndir sem sýna hvernig umhorfs var kringum sláturhúsið í gærmorgun.
Það er því ljóst að menn greinir á um ágæti sláturhússins eða umgengni á lóð þess.