Sofandi skipsstjórar algeng orsök skipsstranda

Mars HU á Húnaflóa í maí sl. Mynd:Skýrsla Rann­sókna­nefnd­ar sam­göngu­slysa.
Mars HU á Húnaflóa í maí sl. Mynd:Skýrsla Rann­sókna­nefnd­ar sam­göngu­slysa.

Frá árinu 2000 má rekja 43 skipsströnd við Ísland til þess að stjórnandi þess sofnaði, samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Meðalvökutími skipsstjórnenda í þessum tilfellum var um 24 klukkustundir en fór allt upp í 40 klukkustundir. Þetta kemur fram í niðurstöðum Rannsóknanefndar samgönguslysa sem sagt er frá í Morgunblaðinu í dag.

Í skýrslunni kemur fram að í langflestum tilfellum hafi verið um að ræða minni báta með fjóra eða færri í áhöfn. Oft hafi óhöpp af þessu tagi verið eitt til tvö á ári en á síðasta ári voru þau fimm og árin 2005 og 2007 voru þau fjögur talsins. Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknastjóri siglingasviðs, segir það vera áhyggjuefni að skipsströndum hafi fjölgað á ný á síðasta ári.

Í frétt Morgunblaðsins er vikið að strandi fiskibátsins Mars HU í maí á síðasta ári en í nýrri lokaskýrslu siglingasviðs RNSA er niðurstaðan sú að strand hans megi rekja til þess að stjórnandi bátsins sofnaði. Fram kemur að upplýsingar bendi til þess að skipstjórinn hafi verið á fótum í um 20 klukkustundir og þar af um 17 tíma á sjó þegar báturinn strandaði. Hann var að koma af grásleppuveiðum og voru þrír menn um borð og björguðust allir. Báturinn losnaði strax af strandstað en hann sökk skammt norðan við Hvammstanga.

Í ábendingu nefndarinnar er því beint til skipstjórnarmanna að farið sé eftir lögum um mönnun og útivist en í lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa er kveðið á um að á skipum undir 24 metrum að skráningarlengd skuli vera stýrimaður ef útivera skips fer fram úr 14 klukkustundum á hverju 24 klukkustunda tímabili. Þá hvetur nefndin stjórnendur til að nota allan þann viðvörunarbúnað sem geti komið í veg fyrir atvik sem þetta.

Í Morg­un­blaðinu í dag er haft eftir Ástu Þor­leifs­dóttuir, vara­formanni fagráðs um sigl­inga­mál, að fagráðið muni efna til ráðstefnu 19. mars þar sem fjallað verður sér­stak­lega um þetta vanda­mál. Einnig verða kynntar ýmsar nýjungar sem dregið geta úr hættu á slíkum slysum. „Það sem slær mig svo­lítið illa er að í júlí síðastliðnum urðu sex svona strönd við góðar aðstæður. Við höf­um verið ótrú­lega hepp­in að það hafi ekki orðið nein bana­slys, eft­ir því sem ég best veit,“ sagði Ásta sem bendir á að tjónið sé samt sem áður mikið. Bát­arn­ir jafn­vel ónýt­ir, fólk missi vinn­una og svona óhöpp hafi keðju­verk­andi áhrif á þeim stöðum þar sem bát­arn­ir voru gerðir út. And­leg líðan þeirra sem í þessu lenda bíði þess jafn­vel aldrei bæt­ur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir