Stefán Vagn og Bjarni Jóns ræða um vegabætur á Alþingi

Stefán Vagn Stefánsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Lagt er til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra láti hefja vinnu við rannsóknir og frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.

Stefán Vagn tók sæti á Alþingi þessa vikunna í fjarveru Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns í NV kjördæmi. Meðflutningsmaður á tillögunni er Bjarni Jónsson, sem tók sæti sem varaþingmaður fyrir Lilju Rafney Magnúsdóttur á mánudag, en Lilja er í þessari viku stödd á Grænlandi á fundi Vestnorræna ráðsins.

Á heimasíðu Framsóknarflokksins segir að Stefán Vagn hafi nýlega flutt jómfrúarræðu sína á Alþingi þar sem hann nýtti tækifærið og vakti athygli á stöðu Norðurlands vestra.

„Göngin sem um ræðir myndu tengja saman Norðurland og yrðu bylting í samgöngumálum sem og fyrir þjónustu við íbúa á Norðurlandi, m.a. má þar nefna heilbrigðisþjónustu“, segir Stefá Vagn Stefánsson. „Ljóst er að með göngunum myndu veglengdir milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi styttast verulega auk þess sem erfiður fjallvegur, sem oft er farartálmi falla út.“

Segja má að samgöngumál séu þeim mátum ofarlega í sinni því Bjarni minnti á mikilvægi þess að standa við gefin loforð um vegabætur í Árneshreppi og á Ströndum í allri vinnu við nýja samgönguáætlun er hann tók til máls undir liðnum störf þingsins sl. þriðjudag eins og sjá má á heimasíðu Vistri grænna.

„Í tillögu að samgönguáætlun er nánast ekkert að frétta af viðhaldi og uppbyggingu sveitavega og varhugavert að treysta gefnum fyrirheitum inn í framtíðina. Allt Norðurland vestra, Vesturland og Strandir eru úti í kuldanum. Þessu verður að breyta. Þessu verðið þið sem hér sitjið að breyta,“ sagði Bjarni meðal annars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir